Bjarni Benediktsson á fundi með Frans páfa í dag

„Áhugaverðum fundi um loftslagsmál sem fram fór í Vatikaninu lokið. Ég lagði áherslu á þá fyrirmynd sem Íslands er á mörgum sviðum, að við hefðum sett okkur metnaðarfull markmið fyrir framtíðina og vildum deila þekkingu með sem flestum,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra eftir fund í Vatikaninu í dag á vegum Vísindaakademíu Páfagarðs en þar sátu einnig fjölmargir aðrir fjármálaráðherrar CAPE, alþjóðslegs vettvangs fjármálaráðherra. CAPE er ætlað að hvetja til aðgerða í loftslagsmálum.

Á vef fjármálaráðuneytisins segir að Bjarni hafi sagt Ísland hafa verið leiðandi í orkuskiptum, með því að nýta hreinar auðlindir til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Ætlunin væri að taka frekari skref með orkuskiptum í samgöngum og uppbyggingu innviða. Þá stefni ríkisstjórnin að kolefnishlutleysi árið 2040. Ráðherra nefndi einnig að framlag Íslands gæti falið í sér útflutning á þekkingu í orkumálum.

Á fundinum í Vatikaninu ræddu ráðherrarnir leiðir til að draga úr losun bæði með skattalegum hvötum en einnig tæknilegum. Einnig með aðgerðum til að binda kolefni en á fundinum kom fram að með uppgræðslu og náttúrulegum leiðum til bindingar kolefnis mætti draga úr kolefni í andrúmsloftinu um 30% til ársins 2030.

Hans heilagleiki Frans páfi ávarpaði fundinn og sagði að aðgerðaleysi á heimsvísu vekti furðu. Að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aldrei nokkurntíma mælst meiri en nú fyrir hálfum mánuði. Afleiðingar loftslagsbreytinga væru því ljósar um allan heim.

„Við sjáum hitabylgjur, þurrka, skógarelda, flóð og aðrar veðurfræðilegar hamfarir, hækkandi yfirborð sjávar, sjúkdóma og önnur vandamál sem eru alvarlegur fyrirboði um enn verri hluti, ef við bregðumst ekki við og gerum það af alvöru,” sagði páfi.

Í lok ræðu sinnar sagðist Frans páfi vona að ráðherrarnir nýttu umboð sitt til að komast að samkomulagi um áætlun sem byggðist á nýjustu upplýsingum loftslagsvísindanna, hreinni orku og ekki síst siðfræði mannlegrar virðingar.