Málþófið er séríslenskt

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Lengi vel þótti það vitnisburður um elju og þrótt að vinna langa daga, en sú skoðun hefur á undanförnum árum látið undan þar sem við horfum til afkasta í stað vinnustunda. Umræðan á íslenskum vinnumarkaði snýst sífellt meira um framleiðni, þ.e. afköst á hverja vinnustund, og er framleiðniaukning ein af forsendum styttingar vinnuvikunnar. En eins og afköst geta aukist á hverja vinnustund, þá geta þau dregist saman. Því höfum við fengist að kynnast síðustu daga á Alþingi, þar sem fámennur hópur þingmanna hefur tekið afgreiðslu þingmála í gíslingu með málþófi. Það er nefnilega ekkert í þingsköpum sem bannar þingmanni að flytja sömu ræðuna tvisvar, eða í tugi skipta, sé út í það farið. Málfrelsi þingmanna er mikilvægt og er það sérstaklega varið í flestum þjóðþingum heims.

En málþóf á ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði, og þekkist nánast hvergi utan Íslands. Málþóf er séríslenskt fyrirbrigði. Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður. En vinnustaður er hann engu að síður, þar sem vanda þarf mjög til verka til að tryggja góða lagasetningu. Þegar andstæð sjónarmið hafa komið fram í þingsal er nauðsynlegt að leiða mál til lykta, ýmist með málamiðlunum eða með atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. Hvort sem þingmenn verða undir eða yfir í einstaka málum er óumdeilt að þetta er skilvirk og sanngjörn aðferð til að komast að niðurstöðu. Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið. Þrátt fyrir að túlka megi þingsköp, sem skapa rammann um hvernig þinghaldi skuli háttað, með þeim hætti að þingmönnum sé frjálst að halda uppi umræðu endalaust, þá er þar kveðið skýrt á um að andsvör séu aðeins heimiluð með leyfi forseta. Þá er einnig að finna heimild í 71. gr. þingskapalaga til þess að takmarka umræður.

Ég tel rétt og eðlilegt að þingheimur hugi að þessum heimildum til framtíðar. Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. maí 2019.