90 ára afmæli flokksins fagnað um allt land

Hinn 25. maí nk. fagnar Sjálfstæðisflokkurinn 90 ára afmæli sínu, en flokkurinn var stofnaður með sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins þann dag árið 1929. Allar götur síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið eitt stærsta umbótaaflið í íslensku samfélagi.

Í tilefni af þessu skipaði miðstjórn Sjálfstæðisflokksins afmælisnefnd sem nú hefur sett upp dagskrá næstu mánuði til að halda upp á tímamótin. Í nefndinni eiga sæti; Halldór Blöndal, Kjartan Gunnarsson, Sólveig Pétursdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Birgir Ármannsson, Sigríður Svavarsdóttir, Nanna Kristín Tryggvadóttir og Davíð Snær Jónsson.

Afmælisfögnuður um allt land 25. maí

Til að fagna afmælinu munu fulltrúaráð landsins standa fyrir margskonar viðburðum þann 25. maí nk. um allt land sem verða auglýstir bæði hér á síðunni og eins í staðarblöðum. Í Valhöll mun sem dæmi vera opið hús frá 11:30-13:00 þar sem gestum verður boðið upp á veitingar og í framhaldinu verður farið í Heiðmörk í reit Heimdallar og plantað 90 trjám. Að því loknu er ætlunin að gera skil ríkum þætti Sjálfstæðisflokksins í gróðurvernd og umhverfismálum.

Gengið um allt land 18. ágúst

Hinn 18. ágúst næstkomandi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að efna til göngu um land allt sem verða skipulagðar af heimamönnum á hverjum stað og auglýstar bæði hér á síðunni og eins í staðarblöðum.

Formannafundur, flokksráðsfundur, málþing og kvöldskemmtun

Hinn 7. september nk. er fyrirhugað að sjálfstæðismenn af landinu öllu fagni 90 ára afmæli flokksins saman með málþingi, formannafundi, flokksráðsfundi og kvöldskemmtun sem nánar verður auglýst síðar.

Þessu til viðbótar má búast við hliðarviðburðum á borð við golfmót og hátíðarkvöldverðum sem einstök félög og ráð kunna að standa fyrir.

Eru sjálfstæðismenn hvattir til að taka ofangreindar dagsetningar frá og fjölmenna til að fagna þessum stóra áfanga í sögu flokksins.