Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Fyrir 25 árum opnaðist um 500 milljóna markaður fyrir íslenskum fyrirtækjum með inngöngu í EES. Samningurinn var umdeildur á sínum tíma en samningurinn hefur fært okkur mikla velsæld. Landsframleiðsla á mann hefur tvöfaldast, verðmæti útflutnings á mann þrefaldast og kaupmáttur heimilanna nær þrefaldast. Ég tel það ekki bara gott heldur lífsnauðsynlegt fyrir lítið eyríki í Norður-Atlantshafi að eiga í góðum samskiptum, bæði viðskipta-, stjórnmála- og menningarlegum við önnur ríki. En þá má spyrja hvort við ættum ekki bara að ganga í Evrópusambandið? Svar mitt við því er NEI. Sjálfstæði og velferð okkar er betur varið utan ESB en þó í góðu sambandi við ESB. Þannig er EES samningurinn að mínu viti besta lausnin. Ég hef stundum heyrt fleygt spurningum á borð við: En er allt svona frábært við þetta EES kjaftæði? Erum við ekki bara einhver stimpilpúði fyrir Brussel? Höfum við nokkra aðkomu að löggjöfinni? Nei það er ekki allt frábært, en hagurinn er mikill. Við þurfum alltaf að gæta hagsmuna okkar. Við tökum bara upp gerðir sem falla undir málaflokka samningsins, það eru um 13% þeirra gerða sem ESB hefur samþykkt á þessum 25 árum. Við semjum um undanþágur og fyrirvara þegar það á við og samráð við Alþingi er mikið.
Þriðji orkupakkinn
Nú liggur fyrir þinginu að innleiða þriðja orkupakkann, tæknilegt framhald af þeim fyrsta og öðrum. Sú innleiðing hefur takmarkaða þýðingu hér á landi. Enda er lagalegur fyrirvari um að hlutar pakkans taki ekki gildi hér þar sem íslenski orkumarkaðurinn er ekki tengdur þeim evrópska. Allur vafi er tekinn af um það að hér verður aldrei lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis. Þá spyrja sumir af hverju erum við þá að þessu?
Í pakkanum felst aukin neytendavernd, krafa um gegnsæi á markaði og sjálfstætt raforkueftirlit. Engin hætta er fólgin í pakkanum og yfirráð yfir auðlindum okkar færist ekki úr landi. EES samningurinn er mikilvægasti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert og við getum ekki einhliða valið hluti úr því samstarfi. Við getum sótt um undanþágur, sett fyrirvara og aðlagað eins og við höfum nú þegar gert. Engin innleiðing á Evrópureglugerð hefur fengið jafn mikla umfjöllun sérfræðinga, þingmanna og ráðherra á 9 ára vinnslutíma þess. Þannig hafa fjöldi þingmanna úr nær öllum flokkum komið að málinu á síðustu árum, öll álit hafa verið á þá leið að ekkert mæli á móti innleiðingu pakkans. Einhvertímann kann að koma upp sú staða að við viljum nota neyðarhemilinn og segja Nei. Til þess þurfa að liggja fyrir góð málefnaleg rök enda hefur slíkt aldrei verið gert í sögu samningsins. Þau rök liggja ekki fyrir í þessu máli. Ef ég teldi hættu á ferð myndi ég ekki hika við að segja nei við innleiðingunni og senda hana aftur til Brussel. Hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru það eina sem ræður afstöðu minni í þessu sem og öðrum málum sem ég fæst við á þinginu.
Við eigum alltaf að standa vörð um auðlindir Íslands og ég skil vel að margir kunni að vera óöruggir í ljósi þeirrar umræðu sem sprottið hefur um þetta mál. Ef þú er í þeirri stöðu og vilt leggja fyrir mig spurningu, viðra skoðanir, eða óska eftir gögnum þá er þér velkomið að hafa sambandi.
Greinin birtist fyrst í Mosfellingi 2. maí 2019