Sjálfsögð lífsgæði?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Aðild­in að EES-sam­starf­inu er lík­lega eitt mesta gæfu­spor sem Ísland hef­ur tekið á seinni árum. EES-sam­starfið veitti okk­ur aðgang að innri markaði Evr­ópu og færði okk­ur úr gjald­eyr­is­höft­um sem höfðu þá varað í rúm 60 ár. Við þekkj­um það hvernig EES-sam­starfið ýtti und­ir frjálst flæði á vör­um, fólki, þjón­ustu og fjár­magni á svæði þar sem búa yfir 500 millj­ón­ir manna og flýtti fyr­ir efna­hags­legri upp­bygg­ingu hér á landi. Ávinn­ing­ur­inn af sam­starf­inu er það mik­ill að öll­um má vera ljóst að við erum að fórna minni hags­mun­um fyr­ir meiri með aðild okk­ar að því.

Að und­an­förnu hef­ur skap­ast umræða um veru okk­ar í EES-sam­starf­inu, sem er í raun umræða um þátt­töku okk­ar í alþjóðasam­starfi. Þessi umræða hef­ur ekki verið tek­in í tals­verðan tíma hér á landi. Mögu­lega er það vegna þess að þeir sem eru í það minnsta und­ir fer­tugu þekkja lítið annað en að njóta þeirra kosta og lífs­gæða sem EES-samn­ing­ur­inn fær­ir okk­ur. Þau þekkja tæki­fær­in til að mennta sig er­lend­is, búa þar og starfa, lífs­gæðin sem fylgja því að geta stundað frjáls viðskipti milli landa og telja það í raun sjálf­sagðan hlut.

Mögu­lega höf­um við of sjald­an tekið al­vöru umræðu um alþjóðasam­starf. Það má velta því upp hvort Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn, sem hef­ur verið and­snú­inn inn­göngu Íslands í Evr­ópu­sam­bandið – og ég er þar ekki und­an­skil­in – hafi í and­stöðu sinni látið það liggja full­mikið á milli hluta að tala um aðra kosti alþjóðasam­starfs, auk­inn­ar þátt­töku Íslands í starfi alþjóðastofn­ana, auk­inna viðskipta milli landa og þannig mætti áfram telja.

Það má að sama skapi velta því upp hvort stuðnings­menn þess að Ísland ger­ist aðili að ESB hafi ekki gerst sek­ir um hið sama. Að fólk hafi þannig ein­blínt of mikið á inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið en á sama tíma hunsað aðra mik­il­væga þætti í þeim tæki­fær­um sem við höf­um til að taka þátt í og móta alþjóðasam­starf okk­ar. Í stuttu máli má segja að mögu­lega hafi umræðan um það hvort Ísland eigi að ger­ast aðili að ESB truflað okk­ur í því að ræða af ein­hverri al­vöru um ut­an­rík­is­mál og alþjóðasam­starf í víðara sam­hengi.

Ákvörðunin um að ger­ast aðili að EES-sam­starfi var tek­in af stjórn­völd­um sem þá voru þess full­viss að auk­in teng­ing okk­ar við um­heim­inn væri til hins góða. Menn vissu og trúðu því að auk­in viðskipti milli landa myndu færa okk­ur aukna hag­sæld, að það væru tæki­færi fólg­in í því að geta menntað sig og starfað er­lend­is, að fá hingað til lands fólk til starfa og að flytja fjár­magn óheft á milli landa. Ávinn­ing­ur­inn af þess­ari framtíðar­sýn um öfl­ugra og betra sam­fé­lag er ótví­ræður og það er ljóst að lífs­kjör á Íslandi væru lak­ari fyr­ir alla lands­menn ef við vær­um ekki hluti af EES-sam­starf­inu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. apríl 2019.