Ekki fyrir kerfið heldur almenning og atvinnulífið

Óli Björn Kárason alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hvergi í ríkj­um OECD er reglu­byrði þjón­ustu­greina þyngri en á Íslandi. Þetta er niðurstaða út­tekt­ar OECD sem kynnt var fyr­ir skömmu á fundi ráðgjaf­ar­nefnd­ar um op­in­ber­ar eft­ir­lits­regl­ur. Ekk­ert bend­ir til þess að reglu­byrðin sé hlut­falls­lega ein­fald­ari eða létt­ari á öðrum sviðum at­vinnu­lífs­ins.

Skipt­ir þetta máli? Auðvitað – reglu­verk og um­gjörð um ís­lenskt at­vinnu­líf er spurn­ing um sam­keppn­is­hæfni gagn­vart helstu sam­keppn­islönd­um og þar með spurn­ing um lífs­kjör. Þess vegna er það ein frum­skylda stjórn­valda að verja sam­keppn­is­hæfni lands­ins. Með því að setja íþyngj­andi kvaðir og regl­ur – um­fram það sem al­mennt ger­ist – er auk­in hætta á að ís­lensk fyr­ir­tæki og launa­fólk verði und­ir í harðri og óvæg­inni alþjóðlegri sam­keppni.

Í lög­um um op­in­ber­ar eft­ir­lits­regl­ur seg­ir að þegar „eft­ir­lits­regl­ur eru samd­ar eða stofnað er til op­in­bers eft­ir­lits skal viðkom­andi stjórn­vald meta þörf fyr­ir eft­ir­lit, gildi þess og kostnað þjóðfé­lags­ins af því. Slíkt mat get­ur m.a. fal­ist í áhættumati, mati á alþjóðleg­um skuld­bind­ing­um um eft­ir­lit, mati á kostnaði op­in­berra aðila, fyr­ir­tækja og ein­stak­linga, mati á hvort ná megi sama ár­angri með hag­kvæm­ari aðferðum eða mati á þjóðhags­legu gildi eft­ir­lits“. Mat af þessu tagi á að fylgja með stjórn­ar­frum­vörp­um.

Íþyngj­andi og gengið lengra

Í áður­nefnd­um lög­um er for­sæt­is­ráðherra gert að skipa fimm manna nefnd til ráðgjaf­ar um eft­ir­lit á veg­um hins op­in­bera og fram­kvæmd lag­anna. Að eig­in frum­kvæði vann þáver­andi nefnd skýrslu um um þróun reglu­byrði at­vinnu­lífs­ins á 143. til 145. lög­gjaf­arþingi [2013-2016]. Í skýrsl­unni er yf­ir­lit yfir þau frum­vörp sem urðu að lög­um og leggja aukn­ar byrðar á at­vinnu­lífið eða ein­falda það reglu­verk sem fyr­ir­tæki starfa eft­ir. Vert er að hafa í huga að í sama frum­varpi geta jafnt verið íþyngj­andi ákvæði og ein­föld­un reglu­verks.

Á um­ræddu tíma­bili voru samþykkt 35 frum­vörp sem áhrif höfðu á reglu­byrði. Aðeins sex frum­vörp sem urðu að lög­um mæltu ein­vörðungu fyr­ir um ein­föld­un reglu­verks, 17 fólu í sér íþyngj­andi regl­ur og 12 bæði íþyngj­andi og ein­fald­ara reglu­verk. Af þeim 17 sem voru ein­göngu íþyngj­andi voru 14 vegna inn­leiðing­ar EES-reglna.

Í skýrslu ráðgjaf­ar­nefnd­ar­inn­ar er bent á að ef „litið er til þess í hversu mörg­um til­vik­um gengið var lengra í inn­leiðingu en viðkom­andi gerðir mæla fyr­ir um, sem leiðir til þess að at­vinnu­líf­inu er íþyngt meira en þörf var á til að upp­fylla skyld­ur Íslands sam­kvæmt EES-samn­ingn­um, kem­ur í ljós að í sjö til­vik­um var um slíkt að ræða“. Þetta þýðir að eitt af hverj­um þrem­ur laga­frum­vörp­um sem samþykkt voru gekk lengra og var meira íþyngj­andi en nauðsyn bar til.

Yfir 50 íþyngj­andi ákvæði voru í þeim frum­vörp­um sem lögð voru fram; aukið eft­ir­lit, leyfi og til­kynn­ing­ar, skatt­ar og gjöld, þving­unar­úr­ræði og refsi­heim­ild­ir og loks ýms­ar kvaðir. Á um­rædd­um árum voru samþykkt 26 íþyngj­andi ákvæði sem fólu í sér aukn­ingu á stjórn­sýslu­byrði, þ.e. kröf­ur um öfl­un upp­lýs­inga, leyfi eða til­kynn­ing­ar og aukið eft­ir­lit. Í niður­lagi skýrslu ráðgjaf­ar­nefnd­ar­inn­ar seg­ir orðrétt:

„Það sem sting­ur einna mest í augu varðandi þær upp­lýs­ing­ar sem hér birt­ast er hve grein­ingu á hugs­an­leg­um íþyngj­andi áhrif­um reglna er ábóta­vant. Það er grund­vall­ar­atriði fyr­ir góða stjórn­sýslu að slík grein­ing fari fram. Án henn­ar er ómögu­legt fyr­ir stjórn­völd, at­vinnu­líf og al­menn­ing að átta sig á ábata og íþyngj­andi áhrif­um sem fylgja setn­ingu reglna fyr­ir at­vinnu­lífið. Aðferðir til að meta íþyngj­andi áhrif eru vel þekkt­ar. Slík grein­ing þarf að fara fram og mat á kostnaði og ábata af setn­ingu regln­anna þarf að liggja fyr­ir áður en ákvörðun um setn­ingu þeirra er tek­in. Ekki næg­ir að vísa til um­sagna hags­munaaðila, held­ur verður að gera slík­ar út­tekt­ir með skipu­leg­um og reglu­leg­um hætti af óháðum aðilum.“

Í skýrslu sem Hag­fræðistofn­un Há­skóla Íslands vann fyr­ir for­sæt­is­ráðuneytið árið 2004 var beinn ár­leg­ur kostnaður fyr­ir­tækja við að fram­fylgja eft­ir­lits­regl­um áætlaður um 7,2 millj­arðar króna á verðlagi 2003. Kostnaður­inn er um 14,4 millj­arðar á verðlagi síðasta árs. Þetta er þris­var sinn­um hærri fjár­hæð en fram­lög rík­is­sjóðs til markaðseft­ir­lits, neyt­enda­mála og stjórn­sýslu at­vinnu­mála á næsta ári sam­kvæmt fjár­mála­áætl­un.

Frá því að Hag­fræðistofn­un vann skýrsl­una hef­ur kostnaður ör­ugg­lega hækkað veru­lega, enda hef­ur regl­um fjölgað, þær verið hert­ar og eft­ir­lit stór­auk­ist.

Víða pott­ur brot­inn

For­sæt­is­ráðuneytið og ráðgjaf­ar­nefnd um op­in­ber­ar eft­ir­lits­regl­ur fengu Maskínu til að kanna viðhorf fyr­ir­tækja vítt og breitt um landið til eft­ir­lits­menn­ing­ar á Íslandi. Niður­stöðurn­ar voru kynnt­ar á fyrr­nefnd­um fundi ráðgjaf­ar­nefnd­ar­inn­ar.

Sam­keppnis­eft­ir­litið kem­ur illa út í könn­un Maskínu. Um 70% eru ósam­mála því að stofn­un­in veiti leiðbein­ing­ar sem auðvelda fyr­ir­tækj­um að tak­ast á við laga­lega óvissu og af­stýra brot­um á regl­um. Um 58% hafa sömu af­stöðu til Fjár­mála­eft­ir­lits­ins. Nær 68% telja að Sam­keppnis­eft­ir­litið sé mjög eða frem­ur óskil­virkt í störf­um sín­um.

Þessu er öf­ugt farið með Póst- og fjar­skipta­stofn­un. Yfir 68% fyr­ir­tækja eru á því að stofn­un­in sinni leiðbein­andi hlut­verki sínu og ber stofn­un­in nokkuð af í þess­um efn­um. Ferðamála­stofa kem­ur þar á eft­ir, en um 60% eru á því að stofn­un­in veiti leiðbein­ing­ar sem koma að not­um.

Um 39% fyr­ir­tækja telja að sá tími sem fer í að fram­fylgja regl­um sé íþyngj­andi. Að fylla út eyðublöð, skila gögn­um, halda upp­lýs­ing­um til haga og önn­ur skriffinnska er íþyngj­andi að mati 44% fyr­ir­tækja.

Yfir 53% segja að sam­ráð sem haft er við at­vinnu­lífið áður en regl­um er breytt sé mjög eða frek­ar slæmt. Rúm 48% fyr­ir­tækja telja að stjórn­völd upp­lýsi at­vinnu­lífið ekki skil­merki­lega eða með nægi­leg­um fyr­ir­vara þegar regl­um er breytt.

Aðeins 27% er á því að regl­ur sem gilda um at­vinnu­rekst­ur sé sann­gjarn­ar og gangi ekki lengra en nauðsyn­legt er.

Niður­stöður könn­un­ar Maskínu eru um margt for­vitni­leg­ar, sum­ar slá­andi og hljóta að vekja löng­un stjórn­valda til að stokka hressi­lega upp í kerf­inu – gera það ein­fald­ara og skil­virk­ara. Sé vilji fyr­ir hendi er hægt að gera ótrú­lega hluti á þeim tveim­ur árum sem eft­ir eru af kjör­tíma­bil­inu. Reglu­verkið allt er fyr­ir al­menn­ing og at­vinnu­lífið, ekki kerfið sjálft. Nauðsyn­leg upp­stokk­un verður að taka mið af þess­um ein­földu sann­ind­um.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. apríl 2019.