Þarf ríkið að selja Landsvirkjun?

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Skoðanakannanir, sem framkvæmdar hafa verið á síðustu árum, benda til þess að mikill meirihluti þjóðarinnar vilji halda eignarhaldi ríkisins á Landsvirkjun óbreyttu. Það er því mikilvægt að árétta að reglur þriðja orkupakkans kalla ekki á einkavæðingu á raforkufyrirtækjum. Fullyrðingum um annað hefur verið haldið fram í umræðunni að undanförnu og eðlilega fyllast því margir áhyggjum. Til þess er enda leikurinn gerður.

Þriðji orkupakkinn hefur ekkert með eignarhald á framleiðslufyrirtækjum raforku að gera, sölu á orkuauðlindum eða fyrirkomulag auðlindanýtingar almennt. Þriðji orkupakkinn hefur enga þýðingu gagnvart einkavæðingu eða uppskiptingu framleiðslufyrirtækja, hvorki gagnvart Landsvirkjun sem framleiðir 71% allrar raforku á Íslandi né Orku náttúrunnar sem framleiðir 19% hennar.

Þvert á það sem hefur ranglega verið haldið fram í umræðunni um þriðja orkupakkann eru engin nýmæli þar að finna sem geta stuðlað að slíkri einkavæðingu eða uppskiptingu. Grunnreglur EES um fjórfrelsið gilda nú þegar um orkumarkaðinn og breytir þriðji orkupakkinn engu um möguleika innlendra og erlendra aðila til að eignast hlut í orkufyrirtækjum á Íslandi eða fá tímabundið leyfi til að nýta auðlindir í opinberri eigu. Það skal því undirstrikað að það kemur ekki til sölu á orkufyrirtækjum í eigu hins opinbera öðru vísi en að stjórnvöld taki ákvörðun þar um.

Þótt það komi þriðja orkupakkanum ekki við er rétt að taka fram að engin áform eru uppi hjá stjórnvöldum um sölu á hlut ríkisins í Landsvirkjun. Það endurspeglast m.a. í fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024. Í fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að Þjóðarsjóði verði komið á fót og hann fjármagnaður með arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum frá orkufyrirtækjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins.

Loks skal það áréttað að samkvæmt gildandi lögum frá 2008 er ríki og sveitarfélögum, og félögum í þeirra eigu, óheimilt að selja frá sér orkuauðlindir. Þriðji orkupakkinn hefur engin áhrif á gildi þeirra laga né annarra laga sem lúta að nýtingu orkuauðlinda og eignarhaldi þeirra. Svarið við spurningunni um hvort selja þurfi Landsvirkjun er því skýrt, og svarið er nei.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2019.