Átak um einfaldara regluverk

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Í skýrslu um einföldun regluverks sem lögð var fram á svissneska sambandsþinginu árið 2010 er m.a. fjallað um skaðsemi flókinna og íþyngjandi reglna. Þar segir um það efni:

“Skriffinnskan felur ekki einungis í sér tímatap og beinharðan kostnað heldur getur hún líka skert athafnafrelsi fyrirtækjanna og getu þeirra til að taka ákvarðanir. Frá sjónarhóli efnahagslífsins í heild dregur þetta úr hagvexti og alþjóðlegri samkeppnishæfni landsins okkar og stofnar þannig fjölda starfa í hættu.“

Það er eitt megin verkefni stjórnvalda að tryggja sem best stöðugleika í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja til lengri tíma og búa þeim samkeppnishæft starfsumhverfi. Eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnvalda í þessu samhengi er að stuðla að einföldu og skilvirku regluverki til hagsbóta fyrir bæði almenning og atvinnulíf. Færa má rök fyrir því að hér sé um sérstaklega mikið hagsmunamál að ræða fyrir fyrirtæki sem starfa í íslenskum landbúnaði og sjávarútvegi enda stór hluti þeirra lítil og meðalstór. Slík fyrirtæki verða enda meira fyrir barðinu á flóknu og svifaseinu regluverki en þau sem sem stærri eru.

Einfaldari og betri eftirlitsreglur

Nú stendur yfir margvísleg vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem miðar að því að gera regluverk í íslensku atvinnulífi einfaldara, skilvirkara og betra. Má þar fyrst nefna að hafin er heildarendurskoðun á öllum eftirlitsreglum sem heyra undir ráðuneytið en þetta verkefni er í fullum gangi að frumkvæði okkar ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga og bætt þjónusta við leyfisumsækjendur er sett í forgang. Markmið verkefnisins er meðal annars að tryggja skýran greinarmun á stjórnsýslulegu og tæknilegu eftirliti, þ.e. eftirliti sem óhjá­kvæmilegt er að stjórnvöld sinni og eftirliti sem mögulegt og eftirsóknarvert er að sé á veg­um aðila utan stjórnkerfisins. Jafnframt að hagnýta upplýsingatæknina til að einfalda nauðsynleg upplýsingaskil frá þeim sem sæta opinberu eftirliti. Í kjölfar þessa átaks verða allar eftirlitsreglur ráðuneytisins teknar kerfisbundið til endurmats á a.m.k. fimm ára fresti.

Reglugerðum fækkað um 120

Í september sl. skilaði starfshópur skýrslu um faglega heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum. Stærsti hluti tillagna hópsins snýst um að einfalda og skýra regluverk. Með því er m.a. leitast við að auðvelda aðgengi að þeim reglum sem gilda og koma þannig til móts við þá gagnrýni sem heyrst hefur á undanförnum árum að erfitt sé að fá heildaryfirsýn yfir þær reglur sem í gildi eru á hverjum tíma.

Undanfarna mánuði hefur ráðuneytið unnið markvisst að því að framfylgja tillögum starfshópsins. Einn angi þessarar vinnu er að grisja reglugerðarskóginn og má nefna að núna er í samráðsgátt stjórnvalda að finna drög að reglugerðum sem fækka reglugerðum um alls 50. Alls er ráðgert að fella úr gildi um 120 reglugerðir í þessu átaki.

Bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni

Í síðasta mánuði skipaði ég samráðshóp um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Hópnum er m.a. ætlað að bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í janúar sl. þar sem farið er yfir hlutverk og rekstur Fiskistofu, eftirlit með vigtun sjávarafla, með brottkasti og með samþjöppun aflaheimilda. Hlutverk hópsins er m.a. að gera tillögur að úrbótum varðandi verklag Fiskistofu við vigtun sjávarafla og eftirlit með brottkasti. Jafnframt hvort nýta megi í ríkari mæli tækni við eftirlit og yfirfara viðurlagaheimildir.

Frumkvæði fólks og fyrirtækja

Á nýafstaðinni fundarferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins um landið voru málin meðal annars rædd á þeim nótum hvert hlutverk stjórnvalda ætti að vera. Í þeim efnum mátti oft heyra þau sjónarmið að þau ættu helst að einbeita sér að því að vera ekki of mikið fyrir. Og ég held að það sé svolítið til í þessu – stjórnvöld verða að passa sig að vera ekki of mikið fyrir því frumkvæðið og krafturinn býr í fólkinu og fyrirtækjunum, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða.

Framangreind vinna um einföldun regluverks er viðleitni í þá átt að stjórnvöld komi til móts við þessi sjónarmið fólksins í landinu.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. apríl 2019.