Vond kennslustund

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Það var áhuga­vert að fylgj­ast með um­fjöll­un Land­ans á RÚV um liðna helgi um ung­mennaráð Suður­lands. Af þeim áhuga­verðu mál­efn­um sem unga fólkið á Suður­landi fjallaði um nefndi það skatta sér­stak­lega. Einn viðmæl­andi þátt­ar­ins hafði orð á því að það vantaði aukna fræðslu um skatta. Ungt fólk áttaði sig á því þegar það færi að vinna að það væri búið að taka stór­an hluta launa þeirra í skatt.

Það bregður sjálfsagt öll­um sem koma nýir inn á vinnu­markaðinn þegar þeir skoða launa­seðil­inn sinn. Stór hluti tekn­anna er tek­inn í skatt og launþegar meðhöndla aldrei þá upp­hæð. Það er að vísu nokkuð sem mætti skoða, hvort ekki sé rétt­ara að launþegar fái út­greidd brúttó­laun sín og standi sjálf­ir skil á skatt­greiðslum. Þannig kann að vera erfiðara fyr­ir hið op­in­bera að hækka skatta. Ég hef lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þar sem hvatt er til þess að hið op­in­bera, bæði stofn­an­ir og fyr­ir­tæki, aðgreini skipt­ingu út­svars og tekju­skatts á launa­seðlum starfs­manna sinna til að varpa betra ljósi á það hvernig skatt­heimtu er háttað.

Það er rétt hjá unga fólk­inu á Suður­landi að það vant­ar meiri fræðslu um skatta. Þeir sem fylgd­ust með öðrum þætti á RÚV vik­una áður, Silfr­inu, fengu þar kennslu­stund í því hvernig maður ætti ekki að horfa til skatta og skatt­heimtu. Í umræðu um stöðu ferðaþjón­ust­unn­ar ít­rekaði Odd­ný Harðardótt­ir, þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, fyrri stefnu flokks­ins um að hækka skatta á þessa mik­il­vægu at­vinnu­grein. Odd­ný, sem er fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra, sagði að ferðaþjón­ust­an nyti enn skatta­afslátt­ar þar sem meg­inþorri henn­ar væri í neðra þrepi virðis­auka­skatts. Hún lét þess ógetið að ferðaþjón­ust­an greiðir, ein út­flutn­ings­greina, virðis­auka­skatt og skil­ar þannig um­tals­verðu fjár­magni í rík­iskass­ann. Hún lét þess líka ógetið að störf í ferðaþjón­ustu hafa nær tvö­fald­ast á inn­an við ára­tug sem aft­ur skap­ar hinu op­in­bera tekj­ur, að ónefnd­um öll­um óbeinu áhrif­un­um sem ferðaþjón­ust­an hef­ur til hins betra á ís­lenskt efna­hags­líf.

Það væri hægt að halda langa tölu um það hversu mikl­ar tekj­ur ferðaþjón­ust­an skap­ar op­in­ber­um aðilum í nú­ver­andi skattaum­hverfi. Það viðhorf sem birt­ist til skatta er sem fyrr seg­ir ekki síður dýr­mæt lexía um það hvernig maður ætti ekki að horfa á skatt­heimtu. Það er rangt að líta á inn­heimtu á neðra þrepi virðis­auka­skatts sem skatta­afslátt eða ein­hvers kon­ar op­in­ber­an styrk, sér­stak­lega þar sem út­flutn­ings­grein­ar (sem ferðaþjón­ust­an er) greiða al­mennt ekki virðis­auka­skatt.

Það er vond kennslu­stund ef skila­boðin eru þau að öll skatt­heimta und­ir 100% sé gjöf frá rík­inu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2019.