Fyrirtækin fái að blómstra

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Við eig­um ör­ugg­lega eft­ir að læra margt af gjaldþroti WOW air. Sumt kem­ur hægt og bít­andi eft­ir því sem upp­lýs­ing­ar um rekst­ur og efna­hag flug­fé­lags­ins verða skýr­ari. Annað ligg­ur þegar fyr­ir og ætti að vera öll­um aug­ljóst. Eitt af því er hversu mik­il­vægt það er fyr­ir starfs­menn, eig­end­ur og sam­fé­lagið allt að fyr­ir­tæki séu rek­in með hagnaði, hafi burði til að greiða góð laun, eðli­leg­an arð af fjár­fest­ing­unni, að þeim tak­ist að byggja upp sterk­an efna­hag og þar með bol­magn til að mæta áföll­um.

Oft er haft á orði að fátt sé nýtt und­ir sól­inni. Og það er vissu­lega rétt að lengi hef­ur verið reynt að ala á tor­tryggni í garð þeirra sem stunda at­vinnu­rekst­ur. Heilu stjórn­mála­flokk­arn­ir hafa byggt hug­mynda­fræði sína á regl­unni um að tor­tryggja alla sem stunda viðskipti enda séu þeir í eðli sínu eig­in­hags­muna­segg­ir sem skari eld að eig­in köku á kostnað al­menn­ings. Verst­ir eru þeir sem hagn­ast. Þeir eru skot­spæn­ir og tákn­mynd­ir hins illa; vondu kapí­tal­ist­anna. Engu skipt­ir hvort viðkom­andi hafi byrjað með tvær hend­ur tóm­ar og byggt upp fyr­ir­tæki og skapað fjölda starfa af dugnaði og elju­semi.

Hug­mynda­fræði tor­tryggn­inn­ar er hug­mynda­fræði átaka, sem þrífst á því að reka fleyg milli launa­fólks og at­vinnu­rek­enda, milli kynja og kyn­slóða. Jarðveg­ur sósí­al­ism­ans er blanda tor­tryggni, átaka og öf­und­ar. En alltaf hef­ur sósí­al­ism­inn endað í ægi­valdi fárra yfir at­höfn­um fjöld­ans – á meðan yf­ir­stétt­in lif­ir í vellyst­ing­um berst al­menn­ing­ur við skort á flest­um nauðsynj­um.

Stjórn­lyndi fest­ir ræt­ur

Það er kald­hæðnis­legt að stjórn­mála­menn sam­tím­ans sæki hug­mynd­ir sín­ar í sama jarðveg og ræt­ur sósí­al­ism­ans liggja. Stjórn­lynd­ir stjórn­mála­menn rétt­læta inn­grip í dag­legt líf ein­stak­linga og fyr­ir­tækja. Í nafni sam­fé­lags­legr­ar ábyrgðar vilja hinir stjórn­lyndu „leiðrétta rang­ar“ ákv­arðanir ein­stak­linga til að tryggja að allt sé í sam­ræmi við póli­tíska rétt­hugs­un. Í hug­ar­heimi stjórn­lynd­is er lækk­un skatta á fyr­ir­tæki og heim­ili röng – með því sé ríkið að „af­sala“ sér tekj­um og „veikja“ tekju­stofna. Setja skal lög og leiða í reglu­gerðir allt er viðkem­ur mann­legri hegðun. Til að ná fram póli­tísk­um mark­miðum er jafn­ræði ein­stak­ling­anna sett til hliðar.

Stjórn­lyndi hef­ur í mörgu náð yf­ir­hönd­inni á Íslandi líkt og víða á Vest­ur­lönd­um. Við sjá­um þess merki að hug­mynd­ir frjáls­lynd­is, sem Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn reis­ir all­an sinn mál­flutn­ing á, eiga und­ir högg að sækja. Emb­ætt­is­manna­kerfið hef­ur að lík­ind­um aldrei verið sterka hér á landi enda hafa stjórn­mála­menn með skipu­leg­um hætti af­salað sér völd­um og af­hent þau til emb­ætt­is­manna og sér­fræðinga. Rauði þráður­inn er að stjórn­mála­menn séu í eðli sínu spillt­ir og of­ur­seld­ir sér­hags­muna­öfl­um – engu skipt­ir þótt þeir sæki umboð sitt til kjós­enda. Sér­fræðing­arn­ir eru hins veg­ar hvít­voðung­ar sem eru eng­um háðir.

And­stæðing­um viðskiptafrels­is hef­ur með skipu­leg­um hætti tek­ist að grafa und­an at­hafna­mönn­um – ná að sá fræj­um tor­tryggni gagn­vart þeim sem stunda at­vinnu­rekst­ur. Þannig hef­ur mynd­ast skjól fyr­ir eft­ir­litsiðnaðinn sem hef­ur vaxið okk­ur yfir höfuð, marg­slung­inn og íþyngj­andi. Það er orðið svo flókið að afla sér til­skil­inna leyfa að dug­mikl­ir fram­taks­menn gef­ast upp á hlaup­um milli stofn­ana og eft­ir­litsaðila. Á stund­um virðist það vanda­sam­ara og meira verk að sinna kröf­um hins op­in­bera en að huga að þörf­um viðskipta­vina.

Þegar hvat­inn hverf­ur

Eft­ir­litsiðnaður­inn – báknið – hef­ur hægt og bít­andi snú­ist upp í and­hverfu sína – frá því að stuðla að virkri sam­keppni, verja hag neyt­enda og stuðla að heil­brigðum viðskipta­hátt­um, í að koma bönd­um á at­vinnu­lífið og fram­taks­menn­ina.

Ég hef áður gert að um­tals­efni hvernig ríki og sveit­ar­fé­lög leggja steina í göt­ur einkafram­taks­ins, allt frá versl­un til sorp­hirðu, frá ferðaþjón­ustu til fjöl­miðlun­ar, frá heil­brigðisþjón­ustu til mennt­un­ar. Það er raun­ar aðdá­un­ar­vert að ein­stak­ling­ar skuli ekki gef­ast upp gegn of­urafli op­in­berra aðila og rík­is­fyr­ir­tækja. Flest­ar tak­mark­an­ir á rekstri rík­is­fyr­ir­tækja hafa verið af­numd­ar, þau seil­ast með skipu­leg­um hætti yfir á verksvið einka­fyr­ir­tækja. Sam­keppn­in er ójöfn og ósann­gjörn.

Með eft­ir­lits­bákni, íþyngj­andi reglu­verki, ásælni hins op­in­bera, tor­tryggni í garð arðbærra fyr­ir­tækja og hug­mynda um að banna arðgreiðslur fyr­ir­tækja sem sinna verk­efn­um fyr­ir ríki og sveit­ar­fé­lög, verður lít­ill hvati fyr­ir ein­stak­linga að leggja allt sitt í sjálf­stæðan rekst­ur, taka áhættu, skapa störf og ný verðmæti. Ungt fólk fær þau skila­boð að miklu skyn­sam­legra sé að fá vinnu hjá hinu op­in­bera en reyna að láta drauma um sjálf­stæðan at­vinnu­rekst­ur ræt­ast. Þegar hvat­inn til at­hafna hverf­ur, moln­ar und­an þjóðfé­lag­inu, það verður fá­tæk­ara og þrótt­lítið. Vel­ferðar­kerfið hryn­ur.

For­senda efna­hags­legr­ar vel­sæld­ar er öfl­ugt at­vinnu­líf. Og at­vinnu­lífið þrífst ekki án hvata og fyr­ir­tæki dafna ekki án hagnaðar. Mörg­um geng­ur illa að skilja þessi ein­földu sann­indi. ekki síst stjórn­lynd­um stjórn­mála­mönn­um. Fæst­ir þeirra sem sitja á Alþingi hafa reynslu af því að eiga allt sitt und­ir í rekstri fyr­ir­tæk­is. Áhyggj­ur yfir að eiga fyr­ir laun­um starfs­manna um næstu mánaðamót eða geta staðið skil á virðis­auka­skatti og launa­tengd­um gjöld­um á kom­andi gjald­daga, eru þeim fram­andi. Kannski er það þess vegna sem skiln­ing­ur­inn á stöðu at­vinnu­rek­enda er ekki meiri í þingsal en raun ber vitni.

Við sem höf­um skip­ar okk­ur í sveit Sjálf­stæðis­flokks­ins eig­um að vera óhrædd við að taka varðstöðu fyr­ir at­vinnu­lífið, ryðja braut­ina fyr­ir fram­taks­mann­inn, tryggja stöðu sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ans. Við eig­um að fjar­lægja hindr­an­ir og byggja upp eft­ir­lits­stofn­an­ir sem vinna með at­vinnu­líf­inu og stuðla að heil­brigðri sam­keppni, hvort held­ur er á al­menn­um markaði eða í op­in­berri þjón­ustu. Bar­átta okk­ar á að snú­ast um að skapa um­hverfi þar sem fram­taks­mönn­um er umb­unað en ekki refsað, þar sem ár­ang­ur er eft­ir­sótt­ur en ekki tor­tryggður – um­hverfi þar sem fyr­ir­tæk­in fá að blómstra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2019.