Enn um krónu á móti krónu…

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Guðmundur Ingi Kristinsson alþingsmaður er góður baráttumaður öryrkja og þeirra sem halloka fara í þjóðfélaginu. Ég hlusta á hann með athygli og er oftast sammála honum. Í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í gær 2. apríl „Búsetuskerðingar og króna á móti krónu“ er gert að því skóna að ég fari með rangt mál varðandi tillögu um að hefja afnám krónu á móti krónu skerðingum. Það eru fleiri en Guðmundur Ingi sem hafa verið með þennan málflutning og sagt mig fara með rangt mál. Hér kemur bókunin sem lögð var fram á fundi samráðshóps um breytta framfærslu almannatrygginga þar sem Guðmundur Ingi og formaður ÖBI fjölluðu um málið með okkur.

Bókun samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga lögð fram á fundi með fulltrúum ÖBÍ og Guðmundi Inga:

„Samkvæmt skipunarbréfi félags- og jafnréttismálaráðherra er hlutverk samráðshóps um breytt framfærslukerfi almannatrygginga að koma með tillögur að nýju greiðslukerfi sem styðji við markmið starfsgetumats. Þá segir að nýju kerfi sé ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla sé lögð á snemmtæka íhlutun, þverfaglega nálgun og samfellu í framfærslu.

Í starfi sínu hefur samráðshópurinn kynnt sér gildandi almannatryggingakerfi og fjallað um ágalla sem mikilvægt er talið að bæta úr. Telur hópurinn mikilvægt að skapa sátt um einföldun kerfisins og að  tryggja framfærslu fólks með skerta starfsgetu og efla til samfélagsþátttöku.

Í vinnu samráðshópsins hefur það komið fram að gert sé ráð fyrir því að lagt verði fram frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og greiðslur vegna skertrar starfsgetu á vorþingi 2019 og að þar verði lagt til að frumvarpið öðlist gildi 1. janúar 2020. Þykir ljóst að undirbúningur vegna nýs starfsgetumats og framfærslukerfis því tengdu muni taka talsverðan tíma enda um flókið og viðamikið verkefni að ræða sem mun krefjast samvinnu og sameiginlegs átaks margra aðila.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2019 verður 2.900 m.kr. bætt við þann málaflokk sem hér um ræðir. Samráðshópurinn telur mjög áríðandi að þessum fjármunum verði vel varið og að ákvarðanir um ráðstöfun þeirra verði teknar með það í huga að þær styðji við nýtt framfærslukerfi almannatrygginga vegna fólks með skerta starfsgetu.

Með framangreint í huga vill samráðshópurinn beina því til ríkisstjórnar Íslands að á árinu 2019 verði svokölluð „krónu á móti krónu“ skerðing sérstakrar uppbótar vegna framfærslu skv. 2. mgr. 9. gr.  laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, afnumin. Gera má ráð fyrir því að í breyttu framfærslukerfi verði þessi bótaflokkur afnuminn með öllu og sameinaður öðrum bótaflokkum, líkt og gert var í tilfelli ellilífeyrisþega í ársbyrjun 2017. Fyrsta skref í þá átt væri að leggja til breytingu þess efnis að í stað þess að miða útreikning á fjárhæð uppbótarinnar við 100% af tekjum lífeyrisþega verði miðað við 50% af tekjum þeirra lífeyrisþega sem ekki fá greidda heimilisuppbót skv. 8. gr. laganna og 65% af tekjum þeirra lífeyrisþega sem búa einir og fá greidda heimilisuppbót. Breytingin yrði afturvirk frá 1. janúar 2019 en áætlaður kostnaður við breytinguna er um 1,4 ma.kr.

Í annan stað vill hópurinn leggja til að sú breyting verði gerð á 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, að þegar um atvinnutekjur er að ræða verði unnt að miða við samtímaupplýsingar. Kæmi sú regla í stað þess að reikna bætur almannatrygginga út frá heildartekjum ársins og greiða bætur hvers mánaðar í hlutfalli við heildartekjurnar. Fram hefur komið að það fyrirkomulag þykir í mörgum tilfellum vera ósanngjarnt og hefur oft leitt til þess að skuld hefur myndast við uppgjör Tryggingastofnunar þegar endanlegar tekjur ársins liggja fyrir. Er áætlaður kostnaður við breytinguna  um 400 m.kr.

Loks er sú tillaga lögð fram hér að þeim 1.100 m.kr. sem eftir standa verði varið til að gera breytingar á bótakerfi almannatrygginga á árinu 2019 með það að leiðarljósi að breytingarnar verði hluti af nýju heildstæðu framfærslukerfi sem gert er ráð fyrir að taki gildi 1. janúar 2019.“

 

Eins og fram kemur í bókuninni átti líka að taka upp samtímaupplýsingar þegar um atvinnutekjur er að ræða og fólk verður öryrki snögglega en nú er það svo að það getur tekið einstaklinga marga mánuði að fá lífeyri þegar tekjur aftur í tímann eru yfir viðmiðunarmörkum og er líka afar ósanngjörn regla. Þessi breyting hefði haft það í för með sér að einstaklingar sem veikjast snögglega geta fengið örorkubætur strax, án tillits til tekna síðustu mánuði og án þess að eiga það á hættu að þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun ofgreiddar bætur.

Þessi bókun hugnaðist hvorki Guðmundi Inga né formanni ÖBÍ, en þeirra tillaga var að nota fjármagnið til að hækka grunnlífeyri en ekki að hefja afnám krónu á móti krónu. En samt er öll umræðan um þá ósanngjörnu leið sem hefði nú heyrt fortíðinni til hefðum við samþykkt bókunina. Enda höfðu forsætis- og fjármálaráðherra samþykkt að hefja afnám krónu á móti krónu eins og bókunin gerði ráð fyrir.

Ég veit að sannleikurinn er hvorki góð söluvara eða vinsæll á samfélagsmiðlum. Það hef ég séð af skrifum um þessi mál og meint ósannindi mín. Ég hef enga ástæðu til að segja ósatt í þessu máli frekar en öðrum. Guðmundur Ingi er ötull baráttumaður öryrkja og ég mun áfram styðja hann í öllum góðum málum, því við erum meira sammála en ósammála. En rétt skal vera rétt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2019.