Skoðuðu Dýrafjarðargöng og heimsóttu Bíldudal

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kíkti á framkvæmdir við Dýrafjarðargöng í gærmorgun, en vel gengur með göngin og einungis eftir að komast í gegnum 170 metra haft sem ætlunin er að klára um miðjan apríl. Göngin verða svo að óbreyttu tekin í notkun haustið 2020.

Að því loknu heimsótti þingflokkurinn fiskeldisfyrirtækið Arnarlax og Íslenska kalkþörungafélagið sem bæði eru staðsett á Bíldudal. Sjókvíar Arnarlax voru skoðaðar og starfsemi fyrirtækisins kynnt með almennum hætti. Eins var verksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins skoðuð og rætt við framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Veðrið skartaði sínu fegursta þennan daginn en Dýrafjörður var 48. viðkomustaður þingflokksins og Bíldudalur sá 49. í hringferðinni sem hófst með fundi á Laugarbakka í Húnaþingi vestra sunnudaginn 10. febrúar sl.

Alls mun þingflokkurinn sækja heim rúmlega 50 staði á landinu, ýmist á opnum fundum eða með vinnustaðaheimsóknum.

Nánari dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.