Útgjöldin halda áfram að hækka

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Hægt er að nálg­ast hlut­ina með ýms­um hætti. Sum­ir sjá alltaf hálf­tómt glas en aðrir horfa á hálf­fullt glasið og líta til tæki­fær­anna. Svo eru þeir til sem þurfa aðeins nokkr­ar klukku­stund­ir til að leggja mat á yfir 470 blaðsíður – með þétt­um texta, töfl­um og grafík – til að átta sig á að þar standi ekki neitt. Við hinir þurf­um lengri tíma og á stund­um lesa texta oft­ar yfir en einu sinni og liggja yfir töfl­um, línu­rit­um, súl­um og skíf­um.

Ég hef ákveðinn skiln­ing á því að liðsmenn stjórn­ar­and­stöðunn­ar (sem hraðast lesa) beini at­hygl­inni fyrst og síðast að því sem þeir telja nei­kvætt í fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar 2020 til 2024. Það er ör­uggt að fjár­mála­áætl­un stjórn­ar­and­stöðunn­ar liti allt öðru vísi út en sú sem Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra kynnti um helg­ina. Á tekju­hliðinni væri ör­ugg­lega fylgt þeirri hug­mynda­fræði að rík­is­sjóður eigi aldrei að „af­sala sér tekj­um“ og að lækk­un skatta sé aðeins til þess fall­in að „veikja“ tekju­stofna. Fyr­ir­mynd­ina sæk­ir stjórn­ar­andstaðan til póli­tískra bræðra og systra í Ráðhús­inu við Tjörn­ina. Með hug­mynda­fræði stjórn­ar­and­stöðunn­ar væri rík­is­sjóður ekki vel í stakk bú­inn til að mæta hugs­an­leg­um áföll­um.

Framtíðin er alltaf óviss

Fjár­mála­áætl­un­in er ekki haf­in yfir gagn­rýni. Það er aug­ljóst að óvissa er um efna­hags­leg­ar for­send­ur. Áætl­un­in styðst hins veg­ar við fyr­ir­liggj­andi hagspá enda ekki hægt að byggja á öðru. Hagþróun á næst­unni er háð mik­illi óvissu vegna bæði innri og ytri þátta. „Alþjóðlega rík­ir óvissa til skemmri tíma vegna póli­tískra umbreyt­inga og átaka um um­gjörð alþjóðaviðskipta,“ seg­ir meðal ann­ars í fjár­mála­áætl­un­inni. Bent er á óvissu sem hef­ur skap­ast vegna rekstr­ar­erfiðleika WOW air en einnig vegna mik­ill­ar sam­keppni á flugi yfir Norður-Atlants­haf. „Flug­far­gjöld eru lág og þyrftu lík­lega að hækka til að styðja við rekst­ur fé­lag­anna. Hætt er við að hærri far­gjöld hafi nei­kvæð áhrif á eft­ir­spurn eft­ir ís­lenskri ferðaþjón­ustu, enda er verðteygni far­gjalda yfir Atlants­hafið há.“

Loðnu­brest­ur set­ur einnig strik í reikn­ing­inn. Órói á vinnu­markaði og kjara­deil­ur hjálpa ekki til við að meta hagþróun kom­andi mánaða og miss­era. Þar með er óvissa meiri um verðbólgu, gengi krón­unn­ar, þróun vaxta og einka­neyslu – raun­ar flest­ar hag­stærðir. Slaki í hag­kerf­inu er að mynd­ast. Vís­bend­ing­ar eru um að inn­lend fram­leiðsla sé í harðari sam­keppni við er­lenda fram­leiðslu en áður. Taki kjara­samn­ing­ar ekki mið af þess­um veru­leika má reikna með að störf­um fækki – at­vinnu­leysi auk­ist.

Þeir sem sjá aldrei annað en hálf­tómt glas eru upp­tekn­ir af því að benda á hugs­an­leg­an „for­sendu­brest“ en forðast að leggja fram hug­mynd­ir um hvernig bregðast skuli við. Vilja þeir lækka rík­is­út­gjöld (hvaða út­gjöld, til hvaða mála­flokka og hversu mikið)? Eða eru þeir á því að grípa til skatta­hækk­ana? (Við vit­um hvaða áhrif hærri skatt­ar hafa á efna­hags­lífið, ekki síst þegar það blæs á móti).

Sterk staða

Eitt meg­in­mark­mið hag­stjórn­ar á hverj­um tíma er að búa svo um hnút­ana að hag­kerfið sé til­búið til að tak­ast á við það óvænta, ekki síst efna­hags­lega erfiðleika. Íslenskt þjóðarbú og rík­is­sjóður sér­stak­lega hef­ur ágætt bol­magn til að glíma við áföll. Segja má að allt frá 2013 hafi bónd­inn í fjár­málaráðuneyt­inu verið dug­leg­ur við að safna korni í hlöður til að mæta mögr­um árum. Hann hef­ur ekki fallið í þá freist­ingu að eyða búhnykk og hval­rek­um í stund­argam­an.

Staða rík­is­sjóðs hef­ur gjör­breyst á nokkr­um árum. Í lok árs 2011 námu skuld­ir rík­is­sjóðs um 86% af vergri lands­fram­leiðslu. Við lok síðasta árs var hlut­fallið komið niður í 28%. Í fjár­mála­áætl­un­inni er gert ráð fyr­ir að heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs verði komn­ar und­ir 20% af lands­fram­leiðslu í árs­lok 2020 og 12,1% árið 2024.

Hreinn vaxta­kostnaður rík­is­sjóðs var 3,1% af vergri lands­fram­leiðslu árið 2013. Þetta sama hlut­fall verður um 1,7% á þessu ári. Með öðrum orðum: Ríkið hefði þurft að greiða um 43 millj­örðum meira í vaxta­kostnað á yf­ir­stand­andi ári en það ger­ir ef hlut­fall vaxta­kostnaðar væri það sama af lands­fram­leiðslu og 2013. Lægri vaxta­kostnaður jafn­gild­ir um 480 þúsund krón­um á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu. Sparnaður­inn er átta millj­örðum meiri en nem­ur fram­lög­um til allra fram­halds­skóla á land­inu.

Mik­ill vöxt­ur út­gjalda

Flest hef­ur verið okk­ur Íslend­ing­um hag­fellt á síðustu árum. Gríðarleg lækk­un skulda rík­is­ins – þar sem búið er í hag­inn fyr­ir framtíðina og dregið er úr vaxta­gjöld­um – hef­ur gert það kleift að auka út­gjöld, ekki síst til vel­ferðar­mála, lækka skatta en um leið halda ágæt­um stöðug­leika.

Á síðustu fimm árum hafa ramma­sett út­gjöld auk­ist um rúm­lega 206 millj­arða króna að raun­v­irði eða um 36% frá ár­inu 2014. Fram­lög til heil­brigðismála hafa hækkað um 65 millj­arða (37%) og til fé­lags-, hús­næðis- og trygg­inga­mála um 66,5 millj­arða (48%). Áhersl­an hef­ur verið á vel­ferðar­mál.

Öllum hef­ur mátt vera ljóst að gríðarleg raun­aukn­ing út­gjalda rík­is­ins til allra mála­flokka get­ur ekki haldið enda­laust áfram. Aukn­ing­in er ekki sjálf­bær til lengri tíma litið. Fjár­mála­áætl­un­in til 2024 ber þess merki. Gengið er út frá því að vöxt­ur út­gjalda verði minni á kom­andi árum og á síðari hluta tíma­bils­ins verði aukn­ing frumút­gjalda minni en áætlaður hag­vöxt­ur.

Þótt ætl­un­in sé að hægja á vexti út­gjalda munu fram­lög til vel­ferðar­mála halda áfram að vaxa. Sam­kvæmt fjár­mála­áætl­un verða út­gjöld­in tæp­lega 57 millj­örðum hærri árið 2024 en fjár­lög yf­ir­stand­andi árs gera ráð fyr­ir. Mest verður raun­aukn­ing­in til heil­brigðismála eða nær 27 millj­arðar króna. Útgjöld til vel­ferðar­mála verða í lok tíma­bils­ins um 60% af ramma­sett­um út­gjöld­um rík­is­ins að frá­dregn­um vara­sjóði.

Útgjöld­in halda því áfram að hækka á kom­andi árum. Ramma­sett út­gjöld til mál­efna­sviða verða um 94 millj­örðum króna hærri í lok tíma­bils­ins en á þessu ári, á föstu verðlagi. Þá eru ótal­in út­gjöld utan ramm­ans; líf­eyr­is­skuld­bind­ing­ar, Jöfn­un­ar­sjóður sveit­ar­fé­laga, fram­lög til At­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóðs, rík­is­ábyrgðir, tapaðar kröf­ur og tjóna­greiðslur. Og ekki má gleyma vaxta­greiðslum.

Í hönd­um þings­ins

Rík­is­stjórn­in hef­ur lagt fram fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2024. Þingið hefst nú handa við að fjalla um áætl­un­ina og setja sitt mark á hana. Þeir þing­menn sem hafa mest­ar áhyggj­ur af þeim for­send­um sem liggja að baki áætl­un­inni hljóta að leggja fram ít­ar­leg­ar til­lög­ur um hvernig þeir telja best að standa að verki við stjórn­un rík­is­fjár­mála á kom­andi árum.

Fjár­mála­áætl­un­in er viðamikið plagg og þar eru mikl­ar tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar. Þar eru einnig út­l­istuð áform í ein­stök­um mála­flokk­um – stefn­an mörkuð eins skýrt og aðstæður leyfa. Útgjöld­in eru eitt en tekju­öfl­un­in er annað. Fyr­ir­hugaðar eru ýms­ar breyt­ing­ar á skött­um og gjöld­um. Flest af því er til bóta en ekki allt. Sumt get­ur sá sem þetta skrif­ar ekki stutt en meira um það síðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2019.