Fullt út úr báðum dyrum í Garðabæ

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fór til fundar við Garðbæinga í morgun, en Garðabæjarfundurinn var 42. viðkomustaður hringferðar Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn var haldinn í sal Sjálfstæðisfélags Garðbæinga og í sal Klifsins, sem er skapandi fræðslusetur í Garðabæ, en sá salur er við hliðina á sal Sjálfstæðisfélagsins. Skemmst er frá því að segja að fullt var út úr dyrum í báðum sölum.

Eins og á öðrum fundum hringferðarinnar fór umræðan um víðan völl. Heilbrigðismál, stjórnarsamstarfið, samgöngumál og málefni ferðaþjónustu voru til umræðu á borðum með þingmönnunum en ekki síður staða ríkisfjármála í ljósi nýrrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem Bjarni Benediktsson kynnti í gær.

Næstu helgi heimsækir allur þingflokkurinn Vestfirði í þriggja daga ferð. Fyrsti fundur er í ráðhússalnum í Bolungarvík föstudaginn 29. mars klukkan 19:30. Laugardaginn 30. mars er fundur á Hótel Ísafirði klukkan 12:00 og í Lýðháskólanum á Flateyri klukkan 16:00.

Þá fer þingflokkurinn í vinnustaðaheimsóknir á Súðavík.Sunnudaginn 31. mars verður þingflokkurinn á veitingahúsinu Hópinu klukkan 15:00 og í félagsheimilinu á Patreksfirði klukkan 16:30. Þingflokkurinn heimsækir einnig vinnustaði á Bíldudal sama dag.

Garðabær var 42. viðkomustaður þingflokksins í hringferðinni sem hófst með fundi á Laugarbakka í Húnaþingi vestra laugardaginn 10. febrúar sl.  Alls mun þingflokkurinn sækja heim rúmlega 50 staði á landinu, ýmist á opnum fundum eða með vinnustaðaheimsóknum.

Nánari dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.