Getur hamlað nýsköpun og dregið úr samkeppni

„Í mínum huga er brýnt að gera þarf greinarmun á ólöglegum smálánum og öðrum neytendalánum þegar unnið er að regluverki slíkra lána. Ég tel að í þeirri vinnu eigi áherslan að vera á að þrengja að þeim lánveitendum smálána sem stunda óréttmæta viðskiptahætti,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og dómsmála-, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í sérstakri umræðu á Alþingi í gær um stöðu Íslands í neytendamálum, þar sem smálán voru m.a. til umræðu.

Hún fór um víðan völl neytendamála í ræðum sínum og ræddi m.a. um stofnanaumgjörð neytendamála, neytendamál á fjármálamarkaði, verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur og merkingar matvæla.

Um smálán sagðist Þórdís Kolbrún vera þeirrar skoðunar að regluverk smálánafyrirtækja sé í dag ekki eins og best verður á kosið, en síðasta sumar skipaði ráðherra starfshóp sem var falið að gera úttekt á starfsumhverfi slíkra fyrirtækja. Komst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að það séu helst ólögleg smálán sem valdi vanda hjá neytendum.

„Ég er sammála starfshópnum um að ekki sé þörf á að gera lánastarfsemina leyfisskylda. Það er mikilvægt að umræða um smálán leiði ekki til þess að þrengt sé að samkeppni og nýsköpun í fjártækni. Ég tel að leyfisskylda geti hamlað nýsköpun og dregið úr samkeppni, og að hæglega sé unnt að ná markmiðum um bætta neytendavernd með öðrum úrræðum,“ sagði Þórdís. Hægt væri að koma böndum á óréttmæta viðskiptahætti „en enginn getur bannað fólki að taka vondar ákvarðanir, þannig verður það aldrei.“

Heilbrigð samkeppni snýst ekki aðeins um verð í augum neytenda

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Suðvesturkjördæmis, tók til máls í sömu umræðu. Sagði hún það eitt af verkefnum stjórnvalda að stuðla að heilbrigðri samkeppni á neytendavörumarkaði.

„Við neytendur gerum mun meiri kröfur en áður þegar horft var fyrst og fremst til verðs,“ sagði Bryndís í ræðustól Alþingis og vísaði til þess að neytendur horfi í sívaxandi mæli til uppruna vara og framleiðslu þeirra. Launakjör, aðbúnaður starfsfólks, kolefnisfótspor og umhverfisvernd skiptir neytendur máli, sagði Bryndís.

Hún fagnaði aukinni samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja. „Atvinnulífið sér hag sinn í því að vera samfélagslega ábyrgt,“ sagði Bryndís og hvatti þingið til þess að vinna áfram að því markmiði að hvetja atvinnulífið til að halda áfram á þeirri vegferð.