Þórdís Kolbrún tekur tímabundið við dómsmálaráðuneytinu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins tekur á ríkisráðsfundi síðar í dag tímabundið við embætti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Þetta tilkynnti Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í Alþingishúsinu rétt í þessu. Hann ítrekaði að um tímabundna ráðstöfun væri að ræða til að skapa rými til að ákveða næstu skref.

Þórdís Kolbrún tekur við embættinu af Sigríði Á. Andersen sem í gær tilkynnti að hún hyggðist óska lausnar frá embætti til að freista þess að skapa frið um þá vinnu og mögulegu ákvarðanir sem þarf að taka á næstu vikum í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í fyrradag.

Þórdís Kolbrún hefur verið starfandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra síðan í janúar 2017 og mun gegna því embætti áfram samhliða embætti dómsmálaráðherra.