Notalegur fundur á Seltjarnarnesi

Notaleg stemning ríkti á opnum fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Sjálfstæðishúsinu á Seltjarnarnesi nú í kvöld þar sem þingmenn og heimamenn mættust til að ræða það sem skiptir máli.

Fundurinn er liður í hringferð flokksins um landið og Seltjarnarnes er 38. viðkomustaður þingflokksins frá því að ferðin hófst 10. febrúar sl.

Líkt og á öllum öðrum opnum fundum þingflokksins var fundurinn á Seltjarnarnesi mjög vel sóttur og áttu sér stað gefandi og góðar óformlegar umræður þar sem Seltirningar gátu rætt öll þau málefni sem brunnu á þeim við alla þingmann og ráðherra flokksins.

Óhætt er að segja að þau málefni hafi verið af mjög fjölbreyttum toga. Samgöngumál voru rædd sem og tíðindi dagsins úr stjórnmálunum. Sjávarútvegsmál komu einnig til umræðu, skattamál, m.a. samsköttun hjóna, innflutningur á hráu kjöti, kjarasamningsmál og aðkoma sveitarfélaga að þeim, greiðslumat vegna íbúðarkaupa og staða fólks sem er fast erlendis vegna þess að það fær ekki greiðslumat hér til kaupa á íbúðarhúsnæði ásamt fjölmörgum öðrum brunnu á fundarmönnum.

Þingflokkurinn mun í hringferð sinni heimsækja alls rúmlega 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir. Næsti fundur verður laugardaginn 16. mars kl. 10:00 í Kópavogi og síðan sunnudaginn 17. mars nk. kl. 12:00 í Mosfellsbæ.

Nánari dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.