Enn er borð fyrir báru

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Nauðsyn­legt er að Reykja­vík – stærsta sveit­ar­fé­lagið í land­inu – komi að kjaraviðræðunum sem nú standa yfir enda er mikið í húfi fyr­ir at­vinnu­rek­end­ur og borg­ar­búa alla. Af þeim sök­um verður að telj­ast mikið ábyrgðarleysi að meiri­hlut­inn í borg­inni, með Dag B. Eggerts­son í broddi fylk­ing­ar, skuli hafa fellt kjarapakka sjálf­stæðismanna á fundi borg­ar­stjórn­ar síðastliðinn þriðju­dag. Þessi af­greiðsla Dags og fé­laga er ekk­ert annað en blaut tuska fram­an í skatt­greiðend­ur í Reykja­vík.

Nú hef­ur formaður stærsta verka­lýðsfé­lags lands­ins, Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, stigið fram op­in­ber­lega og hælt kjarapakk­an­um, enda hefði hann komið sér mjög vel fyr­ir fé­lags­menn VR sem eru þrjá­tíu og fimm þúsund tals­ins.

Það mun­ar um slík­an búhnykk

Raun­ar kvað Ragn­ar út­spil borg­ar­stjórn­ar­flokks Sjálf­stæðis­flokks­ins vera fagnaðarefni með hliðsjón af þeirri staðreynd að kjörn­ir full­trú­ar sveit­ar­fé­laga væru farn­ir að taka til­lit til þeirr­ar al­var­legu stöðu sem upp væri kom­in og hugsa lausnamiðað í þeim efn­um. Auk þess sagði hann til­lög­una um lækk­un út­svars opna á aukn­ar ráðstöf­un­ar­tekj­ur fé­laga í VR sem bú­sett­ir væru í Reykja­vík. En þess má geta að sú til­laga hefði lækkað skatt­byrði meðal­fjöl­skyldu um 84 þúsund krón­ur eft­ir skatta á ári. Það er eng­um vafa und­ir­orpið að það mun­ar um slík­an búhnykk.

Ýtir und­ir stöðug­leika

Borg­in tek­ur meira af launa­skatt­in­um í sinn hlut en ríkið. Borg­in tek­ur 54% í sinn hlut en ríkið tek­ur 44%. Þannig fær borg­in 25% meira en ríkið af skatt­tekj­um borg­ar­búa. Það er göm­ul saga og ný að mikið vill meira. Borg­ar­stjór­inn get­ur ekki hugsað sér að missa spón úr aski sín­um til að koma til móts við launa­fólk í borg­inni, enda kallaði hann til­lög­ur okk­ar inni­halds­laust bull. Orðrétt lét borg­ar­stjór­inn hafa eft­ir sér á fundi borg­ar­stjórn­ar: „Þetta er svo­kallað bull. Inni­halds­laust og ábyrgðarlaust bull.“

Til marks um þetta saup fé­lags­hyggjumaður­inn – borg­ar­stjór­inn sjálf­ur – hvelj­ur þegar hann heyrði að sjálf­stæðis­menn í borg­ar­stjórn hygðust lækka rekstr­ar­gjöld heim­il­anna í borg­inni um 36 þúsund krón­ur að jafnaði á árs­grund­velli. Enda átti að fram­kvæma það með því að hverfa frá fyr­ir­huguðum arðgreiðslum Orku­veit­unn­ar til Reykja­vík­ur­borg­ar að hluta til.

Þetta hefði þýtt kjara­bót fyr­ir heim­il­in í borg­inni upp á 60 þúsund krón­ur ár­lega fyr­ir skatta. Það sem meira er; þetta hef­ur bein áhrif á vísi­tölu neyslu­verðs, sem held­ur verðbólg­unni í skefj­um, og hef­ur áhrif til lækk­un­ar verðtryggðra lána. Þannig er hægt að tala um þessa aðgerð kjarapakk­ans sem veru­lega kjara­bót fyr­ir heim­il­in í borg­inni, enda ýtir til­lag­an jafn­framt und­ir stöðug­leika.

Brunnið upp á báli hærra hús­næðis­verðs

Meiri­hlut­inn hef­ur fengið hverja fall­ein­kunn­ina á fæt­ur ann­arri þegar kem­ur að hús­næðismál­um, enda stefna hans í þeim efn­um beðið skip­brot. Í því sam­hengi næg­ir að nefna að hús­næðis­verð hef­ur hækkað um 100% á síðustu átta árum. Sú staðreynd hef­ur gert það að verk­um að á hverju ári fer meira og meira af tekj­um fólks í að greiða af hús­næði. Síðustu árin hef­ur staðreynd­in því verið sú að kaup­mátt­ar­aukn­ing borg­ar­búa hef­ur brunnið upp á báli hærra hús­næðis­verðs.

Það er því eng­in til­vilj­un að for­svars­menn verka­lýðsfé­lag­anna hafi látið hafa eft­ir sér að ekki verði skrifað und­ir kjara­samn­inga nema fyr­ir liggi skuld­bind­andi sam­komu­lag um að bæta aðstæður fólks á hús­næðismarkaði. Það er held­ur eng­in til­vilj­un að átaks­hóp­ur stjórn­valda í hús­næðismál­um hafi bent á að auka þyrfti fram­boð lóða til að mæta vand­an­um. Þess vegna var í kjarapakk­an­um lagt til að Keldna­landið yrði nýtt til upp­bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis og að auki yrði fallið frá innviðagjöld­um og bygg­ing­ar­rétt­ar­gjöld­um stillt í hóf.

Betra er seint en aldrei

Það er því köld kveðja til borg­ar­búa að meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar hafi hafnað til­lögu okk­ar um að samið yrði við ríkið um Keldna­landið án skil­yrða um aðra fjár­mögn­un rík­is­ins. Það er líka köld kveðja til tugþúsunda borg­ar­búa að meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar skuli hafa hafnað til­lögu okk­ar sjálf­stæðismanna um kjarapakka sem koma á til móts við launa­fólk og liðka til í kjaraviðræðunum.

Enn er borð fyr­ir báru. Meiri­hlut­inn í Reykja­vík hef­ur enn tæki­færi til að bregðast við og leggja sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar til lausn­ar kjara­deil­unni. Betra er seint en aldrei. Reykja­vík­ur­borg gæti spilað stórt hlut­verk í að liðka fyr­ir kjaraviðræðunum enda hef­ur borg­in enn svig­rúm til að koma að því að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur og kaup­mátt heim­il­anna í borg­inni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. mars 2019.