Skýrari skattgreiðslur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Launa­menn með tekj­ur upp að um 745 þús. kr. á mánuði greiða hærri fjár­hæð af laun­um sín­um í út­svar til sveit­ar­fé­laga en þeir greiða í tekju­skatt til rík­is­sjóðs. Til dæm­is greiðir ein­stak­ling­ur með 500 þús. kr. í mánaðarlaun um 49.300 kr. í tekju­skatt að frá­dregn­um per­sónu­afslætti en tæp­ar 67.900 kr. í út­svar. Ein­stak­ling­ur með 300 þús. kr. í laun greiðir um 7.000 kr. í tekju­skatt en um sex­falda þá upp­hæð í út­svar, 40.700 kr.

Það er sjálfsagt og eðli­legt mál að launþegar séu vel upp­lýst­ir um það hvernig skatt­greiðslur þeirra skipt­ast. Ég hef því ásamt öðrum þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að fram­setn­ingu launa­seðla rík­is­ins og stofn­ana þess verði breytt með þeim hætti að þar komi fram hvernig staðgreiðslu viðkom­andi launþega er skipt. Sér­stak­lega verði til­greind fjár­hæð tekju­skatts og út­svars launa­manns, bæði fjár­hæð hvors liðar og hlut­fall þeirra af heild­ar­laun­um og einnig komi fram með skýr­um hætti sú fjár­hæð sem launa­greiðandi greiðir í trygg­inga­gjald og önn­ur launa­tengd gjöld. Þó að það sé ekki á hendi stjórn­mála­manna er rétt að hvetja at­vinnu­rek­end­ur til að gera slíkt hið sama og hafa Sam­tök at­vinnu­lífs­ins nú þegar hvatt til þess að trygg­inga­gjald sé sýni­legt á launa­seðlum. Þetta má gera með ein­föld­um hætti í nú­tíma­bók­halds­kerf­um.

Það er af hinu góða að launa­menn séu al­mennt upp­lýst­ir um önn­ur launa­tengd gjöld. Mót­fram­lag í líf­eyr­is­sjóð og aðra starfstengda sjóði er í mörg­um til­vik­um nú þegar sjá­an­legt á launa­seðlum. Það er full ástæða til að til­greina með sama hætti trygg­inga­gjald sem greitt er með hverj­um launþega. Trygg­inga­gjaldið ber að greiða óháð fjár­hæð launa. Með öðrum orðum er greitt sama hlut­fall burt­séð frá því hversu lág eða há laun viðkom­andi starfs­manns eru. Fyr­ir hvern starfs­mann með 350 þús. kr. í mánaðarlaun greiðir at­vinnu­rek­andi um 25.750 kr. í trygg­inga­gjald. Fyr­ir starfs­mann með 750 þús. kr. nem­ur gjaldið um 55 þús. kr.

Það er mik­il­vægt að auka gagn­sæi skatt­heimtu og al­menna þekk­ingu um það hvernig skatti er skipt milli út­svars og tekju­skatts sem og þekk­ingu um trygg­inga­gjald og önn­ur launa­tengd gjöld launa­greiðanda. Þar sem ríkið inn­heimt­ir tekju­skatt beint af at­vinnu­rek­end­um fara tekju­skatt­ur og út­svar aldrei um hend­ur launþeg­anna, held­ur eru í dag aðeins óljós­ar töl­ur á launa­seðli. Það mætti einnig orða það þannig að tekju­skatt­ur og út­svar er þannig ekki út­gjaldaliður í heim­il­is­bók­haldi lands­manna. Með því að auka gegn­sæi skatt­heimt­unn­ar ber al­menn­ing­ur betra skyn­bragð á eig­in skatt­greiðslur. Það er ekk­ert nema gott um það að segja. Með þeim hætti verður von­andi erfiðara fyr­ir hið op­in­bera, bæði ríki og sveit­ar­fé­lög, að hækka skatta.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. mars 2019.