Ísland gagnrýnir Sádi Arabíu í mannréttindamálum

„Mannréttindi eru hornsteinn utanríkisstefnu Íslands og við tökum alvarlega þá ábyrgð að vera kjörinn fulltrúi í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ríki í ráðinu eiga að sýna gott fordæmi og taka þau mál á dagskrá sem brýnt er að fjalla um, líkt og stöðu mannréttinda í Sádi Arabíu. Því höfðum við frumkvæði að sameiginlegu ávarpi fjölda ríkja, enda slagkraftur skilaboða meiri þegar ríki sameinast um þau. Ég er þakklátur fyrir stuðninginn. Við erum í mannréttindaráðinu til að láta að okkur kveða – og jafnvel þora þegar aðrir þegja,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en Ísland leiddi í dag hóp ríkja í gagnrýni á stöðu mannréttindamála í Sádi Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Þar segir að þetta sé í fyrsta skipti sem Sádi Arabía sæti slíkri samstilltri gagnrýni í ráðinu

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, flutti hið sameiginlega ávarp fyrir hönd 36 ríkja. Gagnrýndi hann framgöngu Sádi Arabíu í mannréttindamálum, m.a. að fólk sem er í fararbroddi í mannréttindabaráttunni sé fangelsað án dóms og laga.

Ísland var kjörið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í júlí síðastliðinn í fyrsta skipti, en hafði áður verið virkt sem áheyrnarríki. Alls sitja 47 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna í ráðinu. Ríkin sem eiga hlut að þessari yfirlýsingu auk Íslands eru: Austurríki, Ástralía, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Kanada, Króatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Noregur, Nýja Sjáland, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Spánn, Svartfjallaland, Slóvakía, Slóvenía, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Fréttina á vef utanríkisráðuneytisins í heild sinni má finna hér.