Vörður hvetur borgarstjórn til að endurskoða ákvörðun sína um að fella kjarapakkann

Vörður – fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík harmar að borgarstjórn Reykjavíkur hafi fellt kjarapakka borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins í fundi sínum í gær.

Sú hóflega lækkun útsvars sem lögð er til í kjarapakka Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mun koma borgarbúum allra til góða og auka ráðstöfunartekjur þeirra til muna. Þá mun lækkun á rekstrargjöldum heimilanna í formi lægri hitaveitu- og eða raforkukostnaðar auðvelda heimilum í borginni að ná endum saman.

Með því að kaupa Keldnalandið af ríkinu og skipuleggja þar ódýrar lóðir sem eru lausar við innviðagjöld mætti byggja hratt og örugglega umtalsvert magn af hagstæðum byggingum fyrir ungt fólk sem þráir að eignast sýna fyrstu íbúð. Væri þar með tekið stórt skref í þá átt að leysa þann viðvarandi húsnæðisvanda sem einkennt hefur Reykjavík undanfarin ár. Nauðsynlegt er að borgin hefjist sem fyrst handa við að byggja ódýrt húsnæði til að mæta þeirri gríðarlegu eftirspurn sem skapast hefur.

Tillögur þessar eru mikilvægt innlegg í yfirstandandi kjaraviðræður og sýna glöggt að borgin getur þar lagt sitt að mörkum til að bæta kjaramál borgarbúa. Vekur það furðu að meirihluti borgarstjórnar geti ekki tekið undir tillögu sem kveður á um að lækka rekstrargjöld heimila og auka framboð á ódýru og öruggu húsnæði, enda hefði mátt ætla að flestir ef ekki allir væru sammála um mikilvægi þess að auðvelda fólki að ná endum saman, hvað þá að eignast eigið húsnæði.

Vörður hvetur því borgastjórn Reykjavíkur til að taka ákvörðun sína frá því í gær til alvarlegrar endurskoðunar, samþykkja kjarapakkann og setja þannig gott fordæmi í kjaramálum sem önnur sveitarfélög geta litið til og fylgt.