Lýsti yfir áhyggjum af vaxandi hatri

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum íslenskra stjórnvalda af vaxandi gyðinga- og múslimahatri í Evrópu og og gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu og Tansaníu þegar hann ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf í gær. Þetta kemur fram í frétt á vef utanríkisráðuneytisins.

Ráðherra gagnrýndi einnig stjórnvöld í Tyrklandi fyrir handtökur á fulltrúum mannréttindasamtaka, blaðamönnum og dómurum. Einnig Sádi Arabíu fyrir bága stöðu mannréttinda og frelsis þar í landi.

„Ríki sem taka sæti í ráðinu eiga að sýna gott fordæmi og vera búin undir að sæta gagnrýni þegar mannréttindi eru brotin,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni og lagði áherslu á mikilvægi þess að hlua að mannréttindaráðinu með virkri þátttöku og hvatti til að unnið yrði að endurbættum starfsháttum þess.

Guðlaugur Þór talaði fyrir aukinni þátttöku smáríkja og sagði of marga mannréttindabrjóta i ráðinu. „Ég vona að kjör Íslands í mannréttindaráðið geti orðið öðrum hvatning,“ sagði ráðherra.

Ráðherra átti margvíslega fundi í Genf, m.a. með framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, utanríkisráðherra Írlands, Simon Coveney, forsvarsmönnum alþjóðlegra félagasamtaka á sviði mannréttinda og í gærkvöldi sat ráðherra kvöldverð í boði utanríkisráðherra Danmerkur þar sem endurbætur á mannréttindaráðinu voru til umræðu.

Frétt utanríkisráðuneytisins má í heild sinni finna hér.