Formenn íhaldsflokka ræddu uppgang popúlista

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra sat í gær og í dag árlegan fund norrænna íhaldsleiðtoga sem að þessu sinni var haldinn í Helsinki.

Formennirnir ræddu uppgang öfga- og popúlistaflokka í Evrópu og sameiginlega afstöðu til að verja norræn gildi gagnvart málflutningi slíkra afla. Einnig voru til umræðu breytingar á pólitísku landslagi þar sem flokkum hefur fjölgað mjög á þjóðþingunum.

Pólitísk og efnahagsleg áhrif útgöngu Breta úr ESB voru á dagskrá fundarins, sem og fjölþætt öryggismál og ógnir í tengslum við heimsókn formannanna í Hybrid CoE – The European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats sem er samstarfsverkefni ríkja sem eiga aðild að ESB eða NATO.

Arvils Ašeradens, Lettlandi, Gabrielius Landsbergis, Litháen, Ulf Kristersson, Svíþjóð, Petteri Orpo, Finnlandi, Erna Solberg, Noregi og Bjarni Benediktsson formenn flokkanna á fundinum í Helsinki í dag.

Formönnum íhaldsflokka í Eystrasaltslöndunum var einnig boðið til fundarins, en hann sóttu formenn íhaldsflokka í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Litháen og Lettlandi, auk Íslands. Formaður danska íhaldsflokksins sótti ekki fundinn af öryggisástæðum heima fyrir.