Skattkerfi og lífskjör verða ekki aðskilin

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Kjara­bar­átta get­ur ekki snú­ist um að rýra kjör þeirra sem standa ágæt­lega. Mark­miðið er að bæta kjör alls launa­fólks og þá fyrst og síðast þeirra sem lak­ast standa. Bar­átta fyr­ir aukn­um tæki­fær­um þeirra sem eru á lægstu laun­un­um er rétt­lát bar­átta. Hug­mynd­ir um hvernig hægt er að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur al­menn­ings með breyt­ing­um á skatt­kerf­inu, eru eðli­leg­ur og nauðsyn­leg­ur hluti af kjara­bar­áttu. For­ystu­menn launa­fólks eiga að hafa skoðun á upp­bygg­ingu skatt­kerf­is­ins – það er hlut­verk þeirra. Skatt­kerfi og lífs­kjör verða ekki aðskil­in.

Hags­mun­ir launa­fólks gagn­vart rík­is­vald­inu eru margþætt­ir. Að rík­is­valdið gæti hóf­semd­ar í skatt­heimtu á fyr­ir­tæki ræður miklu um svig­rúm þeirra til að greiða hærri laun. Ráðstöf­un­ar­tekj­ur ráðast af því hversu miklu launamaður­inn held­ur eft­ir af laun­um sín­um eft­ir að skatt­ar og gjöld hafa verið greidd. Þess vegna skipt­ir tekju­skatt­s­kerfið miklu. Með einu penn­astriki er hægt að éta upp launa­hækk­an­ir í formi breyt­inga á skött­um og bót­um. Með sama hætti get­ur ríkið – lög­gjaf­inn – ákveðið að sníða skatt­kerfið þannig að dregið sé úr jaðarskatt­heimtu og hætt að refsa launa­fólki fyr­ir að bæta sinn hag. Þannig eru ráðstöf­un­ar­tekj­ur aukn­ar.

En ríkið sit­ur ekki eitt um laun­in. Sveit­ar­fé­lög­in taka sinn skerf og raun­ar stærri sneið af laun­um lands­manna en rík­is­sjóður. Meiri­hluti sveit­ar­fé­laga legg­ur á há­marks­út­svar, sem er þung­ur baggi, ekki síst fyr­ir lág­launa­fólk. Í Reykja­vík er út­svars­pró­sent­an í há­marki. Reykja­vík­ur­borg gæti bætt hag tugþúsunda launa­manna með því að lækka út­svarið.

Vandrataður veg­ur

Rík­is­valdið hef­ur reglu­lega komið með óbein­um hætti að kjara­samn­ing­um á al­menn­um vinnu­markaði. Reynt hef­ur verið að leysa hnút­inn eða liðka fyr­ir samn­ing­um með ýms­um hætti. Skött­um hef­ur verið breytt, bæt­ur hækkaðar o.s.frv. Oft hef­ur góður vilji rík­is­valds­ins hins veg­ar leitt til þess að aðilar vinnu­markaðar­ins hafa freist­ast til að gera samn­inga sem lít­il inni­stæða er fyr­ir. Af­leiðing­arn­ar þekkja all­ir, ekki síst þeir sem lægstu tekj­urn­ar hafa.

Veg­ur­inn sem rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur þarf að feta til að „liðka“ fyr­ir kjara­samn­ing­um er vandrataður. En það er ekk­ert óeðli­legt og langt í frá eins­dæmi að verka­lýðshreyf­ing­in leggi fram hug­mynd­ir um til hvers er ætl­ast af rík­is­vald­inu. Engu skipt­ir hvort slík­ar hug­mynd­ir eru kallaðar kröf­ur, ósk­ir eða til­lög­ur. Þetta eru hug­mynd­ir sem þarf að ræða og taka af­stöðu til – ekki und­ir hót­un­um held­ur af yf­ir­veg­un og sann­girni. Fyrr eða síðar þurf­um við sem sitj­um á Alþingi að hafa burði til að taka af­stöðu m.a. til hugs­an­legra skatt­kerf­is­breyt­inga, breyt­inga á bóta- og stuðnings­kerf­um og á skipu­lagi hús­næðismála.

Það er jafn eðli­legt að verka­lýðshreyf­ing­in setji fram til­lög­ur í skatta­mál­um og að at­vinnu­rek­end­ur berj­ist fyr­ir hug­mynd­um (kröf­um) um að skatt­ar á at­vinnu­rekst­ur séu lækkaðir og reglu­verk allt ein­faldað.

Vit­laus­ir hvat­ar

Ég er sam­mála þeim for­ystu­mönn­um verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar sem halda því fram að tekju­skatt­s­kerfi ein­stak­linga sé rang­látt og að hvat­ar kerf­is­ins séu vit­laus­ir. Launa­fólki er oft refsað fyr­ir að bæta sinn hag. Við eig­um sam­leið í bar­átt­unni um að lækka skatta á venju­legt launa­fólk. Ég hef lagt fram ákveðnar til­lög­ur um kerf­is­breyt­ingu, en þær eru langt í frá að vera þær einu sem gætu verið skyn­sam­leg­ar.

En ég á hins veg­ar enga sam­leið með þeim sem telja nauðsyn­legt að láta kjara­bar­áttu snú­ast um að rýra kjör annarra. Hug­mynd­ir um margþrepa tekju­skatt með sér­stöku há­tekjuþrepi 55% (og jafn­vel hærra) er dæmi um hvernig höfð eru enda­skipti á hlut­un­um. Kjara­bar­átt­an sem miðar að því að jafna lífs­kjör niður á við leiðir okk­ur í efna­hags­leg­ar ógöng­ur. Mark­miðið á að vera að jafna upp á við – lyfta þeim upp sem lök­ust hafa kjör­in – létta und­ir með þeim og fjölga tæki­fær­un­um.

Tvær stoðir eigna­mynd­un­ar

Rauði þráður­inn í hug­sjón­um mín­um – í ræðu og riti – er sú sann­fær­ing­in að gera eigi sem flest­um kleift að verða eigna­menn. Ég lít svo á að stjórn­mála­manna hafi fáar mik­il­væg­ari skyld­ur en að stuðla að fjár­hags­legu ör­yggi ein­stak­linga og fjöl­skyldna. Hið sama á við um verka­lýðshreyf­ing­una og for­ystu­menn henn­ar. Fjár­hags­legt sjálf­stæði ís­lensks launa­fólks á að vera eitt helsta bar­áttu­málið.

Þess vegna eru það von­brigði hve lít­il umræða er um hvernig fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­linga og fjöl­skyldna er best tryggt. Eigna­mynd­un ís­lensks launa­fólk hef­ur fyrst og fremst byggst á tveim­ur meg­in­stoðum; á líf­eyr­is­rétt­ind­um og á verðmæti eig­in hús­næðis. Ég ótt­ast að áhersla verka­lýðsfor­yst­unn­ar á upp­bygg­ingu fé­lags­legs hús­næðis í formi leigu kippi ann­arri meg­in­stoðinni und­an eigna­mynd­un launa­fólks, ekki síst þeirra sem lægstu laun­in hafa. Um leið er val­frelsi í hús­næðismál­um skert en ekki aukið. Hætt­an er sú að millistétt­in og launa­menn með lág­ar tekj­ur verði leiguliðar og aðeins hinir efna­meiri búi í eig­in hús­næði.

Verka­lýðshreyf­ing­in hef­ur með réttu ít­rekað nauðsyn þess að gengið sé hreint til verks við að leysa þann vanda sem glímt er við í hús­næðismál­um. Ríki og sveit­ar­fé­lög leika þar lyk­il­hlut­verk. Ríkið get­ur end­ur­hannað allt reglu­verkið þannig að raun­hæft sé að byggja ódýr­ar íbúðir. Sveit­ar­fé­lög­in geta lagt sitt af mörk­um með því að tryggja nægj­an­legt fram­boð af lóðum á verði sem er ekki ofviða venju­leg­um Íslend­ingi.

Hið op­in­bera má hins veg­ar ekki búa til fjár­hags­leg­ar þumal­skrúf­ur til að neyða launa­fólk til að „velja“ bú­setu­form í sam­ræmi við póli­tísk­an rétt­trúnað. Auðvitað vilja ekki all­ir eign­ast eigið hús­næði – sum­ir velja leigu. Með sama hætti og eng­inn hef­ur rétt til þess að neyða þann sem vill leigja til að ráðast í íbúðakaup, má rík­is­valdið, verka­lýðshreyf­ing­in eða at­vinnu­rek­end­ur, aldrei taka sér það vald að beina ein­stak­ling­um og fjöl­skyld­um inn á leigu­markaðinn með fjár­hags­leg­um þving­un­um. Raun­veru­legt val­frelsi í hús­næðismál­um er eitt stærsta hags­muna­mál launa­fólks.

Tæki­færi í minni hag­vexti

Við Íslend­ing­ar höf­um notið gríðarlegs upp­gangs efna­hags­lífs­ins síðustu ár. Tíma­bil mik­ils hag­vaxt­ar er hins veg­ar að baki. Í nýrri þjóðhags­spá Seðlabank­ans er gert ráð fyr­ir að hag­vöxt­ur verði 1,8% á þessu ári. Þetta er minnsti vöxt­ur frá 2012 og tölu­vert minni en áður hafði verið reiknað með. Frá 2012 hef­ur hag­vöxt­ur verið að meðaltali nærri 4,5% á ári. Um­skipt­in ættu því að vera öll­um aug­ljós ekki síst þeim sem sitja við samn­inga­borð vinnu­markaðar­ins.

Auk­inn slaki í efna­hags­líf­inu er áskor­un sem þarf að mæta en um leið gefst ríki og sveit­ar­fé­lög­um tæki­færi til að slaka á klónni. Lækk­un tekju­skatts og út­svars ein­stak­linga er skyn­sam­leg og hleyp­ir auknu súr­efni inn í efna­hags­lífið. Hið sama á við um lækk­un skatta á fyr­ir­tæki. Um­skipt­in í hag­kerf­inu skapa svig­rúm fyr­ir ríkið til að ráðast í arðbær­ar innviðafjár­fest­ing­ar sem meðal ann­ars er hægt að fjár­magna með því að umbreyta eign­um (m.a. í fjár­mála­kerf­inu) í sam­fé­lags­lega innviði. Sé rétt á mál­um haldið er því hægt að nýta minni spennu í efna­hags­líf­inu til að leggja grunn að nýju hag­vaxt­ar­tíma­bili.

Ein krafa sem at­vinnu­rek­end­ur og launa­fólk ættu að sam­ein­ast um er að komið verði á stöðug­leika í skatt­kerf­inu, jafnt er snýr að fyr­ir­tækj­um sem al­menn­ingi. Ég lít á það sem sam­starfs­verk­efni stjórn­valda – þing­manna og rík­is­stjórn­ar – og aðila vinnu­markaðar­ins að marka stefnu í skatta­mál­um til langs tíma. Þar skipt­ir mestu að hugað sé að sam­keppn­is­hæfni lands­ins, jafnt at­vinnu­lífs­ins og heim­il­anna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2019.