100 ár frá fyrsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja

Í gær fór fram hátíðarfundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá fyrsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn, flutti fyrir hönd bæjarstjórnr tillögu að hátíðarsamþykkt um uppbyggingu á gamla sjúkrahúsinu, ráðhúsi Vestmannaeyja við Stakkagerðistún en markmiðið er að húsið fái að hljóta þann virðingarsess sem því sæmir og að innan þess rúmist m.a. viðhafnarsalur og hluti af safnakosti Vestmannabæjar.

Hér að neðan má finna ávarp Hildar Sólveigar á samkomunni:

Forseti, bæjarfulltrúar og gestir.

Það er mér einlæglega ómetanlegur heiður að fá að ávarpa ykkur á þessum hátíðarfundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja sem haldinn er í tilefni af 100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar og að í dag eru nákvæmlega 100 ár frá fyrsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja og óska ég bæjarbúum öllum innilega til hamingju.

Ég vil byrja á að þakka hátíðarnefndinni kærlega fyrir skipulagningu þessa og fleiri viðburða á afmælisárinu.

Stöndum í þakkarskuld við þá sem rutt hafa brautina

Forseti og bæjarstjóri hafa farið hér með greinargóðum hætti yfir sögu samfélagsins og bæjarstjórna til dagsins í dag og fyrir það færi ég þeim bestu þakkir. Á stundum sem þessum er af nægu að taka enda samfélagið okkar í Vestmannaeyjum afskaplega fjölskrúðugt, menningin rík og saga kaupstaðarins á köflum ævintýri líkust.

Því fylgir mikill innblástur og hvatning að fara í gegnum 100 ára sögu af verkum bæði bæjarfulltrúa og kröftugra íbúa sem rutt hafa brautina og stöndum við Vestmannaeyingar í dag í mikilli þakkarskuld við þá sem hafa byggt upp okkar öfluga samfélag.

Gimsteinn á höfuðdjásni miðbæjarins

Í tilefni dagsins ætla ég að fara yfir söguna af einum fallegasta gimsteini Vestmannaeyja sem situr, líkt og gimsteini sæmir, efst á höfuðdjásni miðbæjar okkar, Stakkagerðistúni.

Árið er 1924 og Páll V.G. Kolka læknir skrifar grein um spítalaleysi Vestmannaeyja en á þeim tíma var franski spítalinn, Gamló, sem stendur við Kirkjuveg reistur af frönsku líknarfélagi og sinnti fyrst og fremst frönskum sjófarendum en á síðari tímum sinnti það einnig heimamönnum þó með veikum mætti. Í innblásinni grein sinni skrifar Páll:

,,Við verðum að hefjast handa og byggja hér spítala, þótt það kosti fé. Ef við tímum ekki að varðveita heilsuna, þá tímum við ekki að lifa. Og heilsan er of dýrmæt til þess að henni sé á glæ kastað, því hún er meira virði en gull og gersemar”

Þessi hvatningarorð sem eldast einstaklega vel, hreyfðu við heimamönnum og Gísli J. Johnsen konsúll fór þar fremstur í flokki en hann hafði fyrst árið 1912 tekið upp hugmynd Halldórs Gunnlaugssonar héraðslæknis um byggingu íslensks sjúkrahúss í Vestmannaeyjum.

Byggingarferillinn

Húsið er byggt eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar þáv. húsameistara ríkisins en bygging þess hófst sumarið 1925 og var yfirsmiður Páll Ó. Lárusson og síðar Magnús Ísleifsson og var það tekið í notkun árið 1928. Bygging hússins var mikið átak og var það byggt að mestu fyrir söfnunarfé frumkvöðulsins Gísla J. Johnsens og Önnu Ásdísar Gísladóttur Johnsens eiginkonu hans og fjölmargra aðila innanbæjar og utan ásamt framlögum úr Bæjarsjóði Vestmannaeyja og frá Kvenfélaginu Líkn sem gáfu 20.000 krónur til kaupa á innanstokksmunum. Hjónin Gísli Johnsen og eiginkona hans afhentu svo Vestmannaeyjabæ sjúkrahúsið til eignar með formlegum hætti þann 30. Desember 1927

Húsið var allt mjög vandað, með betri sjúkrahúsum landsins, steinhús, 19,5×10,5 metrar að stærð, portbyggt með miklu risi og hálfvalmaþaki og gat það tekið á móti um 40 sjúklingum.

Starfsemi hússins

Húsið var starfrækt sem sjúkrahús allt þar til Heimaeyjargosið hófst þann 23. Janúar 1973.

Í árslok 1974 var nýja sjúkrahúsið við Sólhlíð tekið í notkun. Starfsemi gamla sjúkrahússins, lækna og annars starfsfólks þess þjónaði samfélaginu í Eyjum og fjölda vertíðarfólks í tæp 45 ár og sinnti sínu hlutverki af miklum myndarskap.

Gamla sjúkrahúsið var loks gert að Ráðhúsi Vestmannaeyjabæjar árið 1977 að afloknum miklum endurbótum og þjónaði Vestmannaeyingum dyggilega sem slíkt í 39 ár.

Ráðhúsið við Stakkagerðistún er í hópi fegurstu og merkustu bygginga sinnar gerðar hér á landi, eins og segir í umsögn Húsafriðunarnefndar sumarið 2011. Ytra byrði hússins var friðað samkvæmt samþykkt húsafriðunarnefndar í október 2011 og ekki gerð athugasemd að viðbygging vestan við húsið, sem var byggð 1934 fyrir berklasjúklinga, væri fjarlægð. Rakaskemmdir, einkum í kjallara og með gluggum varð til þess að starfsemin í húsinu var flutt í annað húsnæði haustið 2016. Húsið er á þremur hæðum og uppfyllir ekki lengur að fullu þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar fjölþættu starfsemi bæjarfélagsins sem þar fór fram.

Ráðhúsið fái þann virðingasess sem því sæmir

Okkur sem sitjum í bæjarstjórn Vestmannaeyja á 100 ára afmæli kaupstaðarréttinda bæjarins ber skylda til þess að húsinu verði sýndur sá sómi sem því ber og endurbygging þess og síðar starfsemi verði lyftistöng fyrir öflugt og fjölbreytt menningarstarf í Vestmannaeyjum og um leið áberandi minnisvarði þeirrar merku menningar- og listasögu sem Vestmannaeyjar eru sannarlega auðugar af og mun vafalaust halda áfram að vaxa og dafna ennfrekar á næsta árhundraði.

Hátíðarræðan var flutt 14. febrúar 2019 í tilefni af 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar.