Héldu þrjá opna fundi á Austurlandi

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt þrjá opna fundi á Austurlandi í gær. Sá fyrsti var í Hótel Valaskjálf þar sem Héraðsbúar og Seyðfirðingar hittu þingmenn og áttu góðar samræður um málefni Austurlands.

Að því loknu var ekið yfir á Reyðarfjörð þar sem hluti þingflokksins hitti heimamenn og hinn hlutinn fór yfir á Neskaupstað og fundaði með íbúum þar. Góður hugur var í fólki eins og við var að búast.

Málefnin sem rædd voru snertu bæði á málefnum Austurlands og landsmálunum. Meðal þess sem rætt var voru flugsamgöngur, skógrækt, Fjarðaheiðagöng, menntamál, sjávarútvegur, landbúnaður o.fl.

Næstu fundir þingflokksins verða í dag, 13. febrúar, á Djúpavogi í hádeginu, á Höfn kl. 16:30 og Kirkjubæjarklaustri kl. 21:00.

Þingflokkurinn mun í hringferð sinni heimsækja alls um 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir.

Dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.