Dagurinn tekinn snemma á Ólafsfirði

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tók daginn snemma í logninu á Ólafsfirði á frábærum morgunfundi sem hófst kl. 08:15 í morgun í Félagsheimilinu Tjarnarborg.

Hluti þingflokksins tók daginn þó mun fyrr og mætti kl. 06:45 í tíu stiga frosti í sund á Ólafsfirði þar sem púlsinn var tekinn á bæjarbúum í heita pottinum. Heimamenn taka daginn greinilega snemma á Ólafsfirði því mikill fjöldi heimamanna var mættur í sund í morgun.

Þingflokkurinn hefur fengið frábærar móttökur á Ólafsfirði og átt gefandi og uppbyggilegt samtal við íbúa Fjallabyggðar um hin ýmsu málefni. Fundurinn var fjölmennur og setið við öll borð þar sem þingmenn hittu íbúa á heimavelli og ræddu um það sem skiptir máli.

Meðal þess sem rætt var eru fiskeldismál, kvótamál, starfsstöð Alþingis í Fjallabyggð, vegagjöld, ferðamál og atvinnumál almennt, samgöngumál, rafræn stjórnsýsla, opinber störf á landsbyggðinni, menntamál og aukið vægi iðnnáms, nýsköpunarmál, sifjamál o.fl.

Þetta er í fyrsta skipti sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ferðast allur saman í kjördæmi landsins í kjördæmaviku Alþingis. Þingflokkurinn mun í ferð sinni heimsækja alls um 50 staði á landinu, ýmist með opna fundi eða vinnustaðaheimsóknir.

Dagskrá ferðarinnar má finna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér þar sem einnig verða birtar fréttir úr hringferðinni sem og á samfélagsmiðlum.