Tillögu um að gera listaverk borgarinnar sýnilegri vísað til úrvinnslu

„Ég er mjög ánægð með að tillögunni hafi verið vísað til frekari úrvinnslu enda er það mikilvægt að kynna börnum menningararf sinn og það er gefandi fyrir börn að vera innan um listaverk með því öðlast þau aukinn skilning á myndlist, skilja hana og njóta hennar. Þess vegna eigum við að fara fleiri leiðir í að gera þann mikla auð sem safnakostur Listasafns er, sýnilegri og aðgengilegri“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og tillöguflytjandi tillögu um að að listaverkaeign Listasafns Reykjavíkur verði gerð sýnilegri í skólum og stofnunum borgarinnar.

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að vísa tillögunni til frekari úrvinnslu í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg varðveitir um 17 þúsund listaverk

Marta sagði í ræðu sinni að Listasafn Reykjavíkur varðveitti um 17 þúsund listaverk af ýmsum gerðum, m.a. málverk, skúlptúra, vídeóverk, textílverk og hljóðverk. Hún sagði jafnframt mörg þessara listaverka henta vel til uppsetningar í almenningsrýmum.

Í tillögunni segir: „að þetta sé gert í þeim tilgangi að efla áhuga nemenda á menningu og listum. Safnstjóra Listasafns Reykjavíkur verði falið að koma á samstarfi við skóla- og frístundasvið og þess gætt við útfærslu verkefnisins að haft verði samstarf við skólastjóra og kennara. Jafnframt er lagt til að verk Listasafns Reykjavíkur verði sýnilegri í öðrum stofnunum borgarinnar í þeim tilgangi að sem flestir geti notið þeirra fjölda verka sem eru í eigu borgarinnar. Skoðað verði að koma upp sérstökum sýningum á safnaeigninni og á einstökum verkum eftir atvikum í skólum og stofnunum borgarinnar.“