Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi rekstur bílastæðahúsa í Reykjavík samþykkt

Borgarstjórn samþykkti með 20 atkvæðum gegn þremur tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Bílastæðasjóð, að skoða bestu leiðir varðandi rekstur þeirra sjö bílastæðahúsa sem Reykjavíkurborg rekur í miðborginni. Sjálfstæðisflokkur og meirihlutinn í borgarstjórn komu sér saman um breytingu á tillögunni á borgarstjórnarfundi í dag. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að möguleikar á rekstrarútboði verði kannaðir. 

 „Ég fagna því að tillaga flokksins um bættan rekstur, nýtingu og þjónustu bílastæðahúsa borgarinnar hafi verið samþykkt,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður tillögunnar og bætir við að Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu  á að kannaðir verði möguleikar á rekstrarútboði.

 Tillagan gerir ráð fyrir að fela umhverfis- og skipulagssviði, í samráði við Bílastæðasjóð, að skoða bestu leiðir varðandi rekstur þeirra sjö bílastæðahúsa sem sjóðurinn rekur í miðborg Reykjavíkur, þar með talið rekstrarútboð, með það fyrir augum að bæta nýtingu, efla þjónustu og auka hagkvæmni. Í tillögunni segir jafnframt að einnig skuli rýna fyrirkomulag rekstrarins út frá markmiðum borgarinnar varðandi stýringu bílastæða, bætta nýtingu borgarrýmis, bílastæðastefnu og stefnu aðalskipulags. Þá er gert ráð fyrir að sviðið skili tillögum til skipulags- og samgönguráðs fyrir 1. ágúst 2019.

 Valgerður segir ávinninginn af útvistun blasa við.

 „Einkaaðilar hafa gjarnan meira svigrúm og sveigjanleika til að auka þjónustu við notendur bílastæðahúsanna, t.d. hvað varðar lengd opnunartíma. Því væri það til hagsbóta fyrir alla borgarbúa og borgarsjóð að fela einkaaðilum rekstur húsanna. Jafnframt er fyrirséð að borgin mun hafa af þessu auknar tekjur.“