Meirihluti bæjarstjórnar braut sveitarstjórnarlög

Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum:

Á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi átti sér stað sérstök atburðarás. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru tilbúnir með breytingatillögu vegna ákvörðunar bæjarráðs um úttekt vegna framkvæmda við Fiskiðjuna.

Tillagan fólst í því að til að gæta meðalhófs og ábyrgrar meðhöndlunar opinberra fjármuna myndu starfsmenn Vestmannaeyjabæjar fara í ítarlega kostnaðargreiningu vegna framkvæmda og ef slík skoðun myndi leiða eitthvað óeðlilegt í ljós þá fyrst væri tilefni til nánari skoðunar. Hins vegar reyndist ógerlegt að leggja slíka tillögu fram þar sem það kom á daginn að umrædd úttekt verktaka sem lá til staðfestingar bæjarstjórnar var komin langt á veg án nokkurrar efnislegrar umfjöllunar né staðfestingar í bæjarstjórn líkt og lög kveða á um.

Sveitarstjórnarlög brotin

Bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar kveður á um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar og byggir á grunni íslensku sveitarstjórnarlaganna. Í 30. grein bæjarmálasamþykktar kemur fram: ,,Ef mál sem bæjarráð hefur heimild til að afgreiða eru samhljóða samþykkt í bæjarráði hefur bæjarstjóri heimild til að láta framkvæma þau. Ef mótatkvæði kemur fram í bæjarráði við afgreiðslu máls bíður frekari vinnsla þess afgreiðslu bæjarstjórnar.” Trausti Hjaltason bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn málinu í bæjarráði og því var engin lagaleg heimild fyrir framkvæmd úttektarinnar sem er langt á veg komin. Þessir stjórnsýsluhættir brjóta ekki bara gegn 30. greininni heldur einnig 49. grein bæjarmálasamþykktar og 35. og 42. grein íslenskra sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórnarlög hafa verið brotin af hálfu meirihluta bæjarstjórnar, á því liggur enginn vafi.

Fallin eru fögur fyrirheit

Það duldist engum sem fylgdist með aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga að vönduð, bætt, gegnsæ stjórnsýsla og aukið lýðræði voru meðal helstu kosningaloforða stjórnmálaafla meirihlutans. Á þeim 8 mánuðum sem núverandi meirihluti hefur starfað hefur verið tekin einhliða ákvörðun um hluthafafund Herjólfs ohf., rekstrarfélags í eigu Vestmannaeyjabæjar án allrar opinberrar umræðu í bæjarráði eða bæjarstjórn, tekin fullkomin stefnubreyting um niðurfellingu fasteignaskatts á eldri borgara sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengu að lesa um í fjölmiðlum aftur án allrar opinberrar umræðu og nú hafa bæjarfulltrúi Eyjalistans og bæjarfulltrúar stjórnmálaaflsins Fyrir Heimaey gerst sekir um brot á reglum bæjarmálasamþykktar og sveitarstjórnarlögum með upphlaupi vegna rangtúlkana sinna á framkvæmdakostnaði við eitt mest spennandi fasteigna- og atvinnuþróunarverkefni síðari ára.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn málinu og lögðu fram bókun á fundi bæjarstjórnar þar sem þessir stjórnsýsluhættir eru harmaðir.

Greinin birtist á eyjar.net þann 1. febrúar 2019.