Bílastæði af herðum borgarinnar

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi:

Á ríkið að leggja vegina? Hjálpa fátækum? Styrkja listamenn? Passa börn og mennta þau? Hlúa að öldruðum? Tryggja öllum lífeyri? Handsama glæpamenn? Skipuleggja hverfi? Að þessu spyr enginn því þetta er í dag í verkahring hins opinbera og það er okkar raunveruleiki. Sá sem vill að listamenn afli sinna eigin tekna þurfa að koma á breytingum á kerfinu. Þeir sem telja að vegir hins opinbera séu ómögulegir á einn eða annan hátt þurfa að stinga upp á öðru fyrirkomulagi og fá það samþykkt. Þetta er hinn pólitíski dans.

En eru engin skýr mörk á milli þess sem klárlega á heima á frjálsum markaði og flestum þykir betra að sé á könnu hins opinbera? Jú, þau finnast hér og þar. Fæstir eru t.d. á því að það eigi að vera í verkahring hins opinbera að selja skó og tannbursta. Enginn heldur úti baráttu fyrir því að ríkisvæða bílaverkstæði landsins eða þjóðnýta matvöruverslanir. Fæstir hafa skýra grundvallarsýn á hlutverk hins opinbera en sætta sig við hlutina eins og þeir eru í dag og hika frekar en hlaupa þegar stungið er upp á breytingum.

Í Reykjavík blasir þó við að ákveðinn rekstur er í höndum hins opinbera sem á ekkert erindi þar, og það er rekstur bílastæðahúsa. Hvernig varð það hlutverk hins opinbera að reka steypukassa sem geyma bíla fyrir vinnandi fólk á dýrustu lóðum landsins? Var það af illri nauðsyn? Voru einkaaðilar of latir?

Hérna þurfa menn að anda með nefinu og hugsa málið aðeins. Af hverju er alltaf nóg af bílastæðum við Kringluna og Smáralind? Meira að segja á tímum jólaverslunar er alltaf hægt að finna laust stæði við þessar byggingar. Til að svara því af hverju einkaaðili byggði flennistórt bílastæðahús við Kringluna, sem er meira að segja gjaldfrjálst að nota, en ekki við Lækjargötu, þarf að notast við hugtakið hvata.

Ef hið opinbera er of þrúgandi, skattleggur of mikið, setur of mikið af reglum og takmarkar svigrúm rekstraraðila of mikið er ljóst að hann leggur upp laupana eða heldur sig fjarri frá upphafi.

Auðvitað á borgin ekki að reka bílastæðahús í miðbænum frekar en það eigi að sölsa undir sig bílastæðin við Kringluna. Borgin ætti að koma rekstri bílastæðahúsa í hendur sérhæfðra einkaaðila. Verður þá of dýrt að leggja í miðbænum? Varla, því þá standa bílastæðin tóm. Verður þetta arðbær rekstur á kostnað vinnandi fólks í miðbænum? Munum þá að arður laðar að sér samkeppnisaðila sem reyna að bjóða betur til að krækja í bita af kökunni. Munu bílastæðin verða vanrækt eins og grastún borgarinnar og holóttar göturnar? Það er hæpið því einkaaðili reynir alltaf að lokka til sín viðskiptavini.

Nú er svo komið að rekstur borgarinnar er í molum. Hluti skýringarinnar er sá að borgin hefur einfaldlega of mikið á sinni könnu. Að losna við rekstur bílastæðahúsanna gæti auðveldað borgaryfirvöldum að einfalda rekstur sinn og gera þá frekar minna og gera það vel en gera mikið og sinna því illa. Það er því tillaga okkar Sjálfstæðismanna á fundi borgarstjórnar í dag, að bjóða út rekstur bílastæðahúsanna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar 2019.