Venesúela: Frá auðlegð til örbirgðar

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Sam­fé­lagið í Venesúela er komið að hruni eft­ir ára­langa óstjórn og spill­ingu sósí­al­ista. Efna­hags­lífið er í rúst. Lands­fram­leiðslan hef­ur dreg­ist sam­an um nær helm­ing frá 2013. Verðbólga er yfir millj­ón pró­sent, skort­ur er á flest­um nauðsynj­um; mat, neyslu­vatni, lyfj­um og raf­magni. Einn af hverj­um tíu íbú­um lands­ins hef­ur flúið til annarra landa. Þrátt fyr­ir rjúk­andi rúst­irn­ar ætl­ar Nicolás Maduro, for­seti lands­ins, að halda áfram og mæt­ir and­stöðu af hörku.

Sósí­al­ist­ar náðu völd­um í Venesúela þegar Hugo Chavez var kjör­inn for­seti árið 1998 með ágæt­um meiri­hluta at­kvæða. Hann var í upp­hafi vin­sæll. Lofaði nýj­um og betri tím­um. Chavez var bylt­ing­armaður sem barðist fyr­ir lýðræðis­leg­um sósí­al­isma 21. ald­ar­inn­ar. Venesúela býr yfir gríðarleg­um ol­íu­auðlind­um – þeim mestu í heim­in­um. Í upp­hafi nutu Chavez og rík­is­stjórn hans þess að olíu­verð var hátt og tekj­urn­ar streymdu inn í landið.

Til að koma á sósíal­ísku skipu­lagi 21. ald­ar­inn­ar taldi for­set­inn nauðsyn­legt að hafa alla þræði í sinni hendi; lög­gjaf­ann, dóm­stól­ana og fram­kvæmda­valdið að ógleymd­um hern­um. Í reynd var þrískipt­ingu rík­is­valds­ins hent út í hafsauga. Dóm­stól­ar voru hreinsaðir og hæstirétt­ur skipaður þeim sem eru stjórn­völd­um þókn­an­leg­ir og þjóðþingið gert valda­lítið. Komið var á sér­stöku stjórn­lagaþingi sem af­greiddi nýja stjórn­ar­skrá sem Chavez var sér­lega stolt­ur af.

Lagt var til at­lögu við einka­fyr­ir­tæki. Þúsund­ir fyr­ir­tækja voru þjóðnýtt­ar í nafni lýðræðis­legs sósí­al­isma. Eign­ar­rétt­ur­inn var virt­ur að engu. Þannig var hægt og bít­andi grafið und­an stoðum efna­hags­lífs­ins. Nú er svo komið að efna­hags­legt frelsi í Venesúela er minna en í nokkru öðru ríki Suður-Am­er­íku. Frelsið er minna en á Kúbu og litlu meira en í Norður-Kór­eu sam­kvæmt ár­legri út­tekt Her­ita­ge-stofn­un­ar­inn­ar.

Eitt rík­asta land heims

Um 1950, þegar flest lönd heims­ins voru að jafna sig eft­ir hryll­ing seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar, var Venesúela meðal rík­ustu land­anna. Lands­fram­leiðsla á mann var sú fjórða mesta í heim­in­um. Landið var tvisvar sinn­um auðugra en Síle, fjór­um sinn­um rík­ara en Jap­an og 12 sinn­um auðugra en Kína. Árið 1982 var Venesúela enn auðug­asta land Suður-Am­er­íku, en síðan hef­ur hallað und­an fæti.

Á hverju ein­asta ári frá 2014 hef­ur efna­hag­ur Venesúela dreg­ist sam­an og á síðasta ári um liðlega 16%. Og á þessu ári reikna sér­fræðing­ar með enn meiri sam­drætti.

Verðbólga er fyr­ir löngu kom­in úr bönd­un­um. Und­ir lok síðasta árs tvö­faldaðist verðlag á 19 daga fresti. Alþjóðastofn­an­ir áætla að raun­verðbólga sé um og yfir millj­ón pró­sent á ári. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn tel­ur að verðbólga geti farið yfir 10 millj­ón­ir pró­senta á næstu mánuðum. Í ág­úst á liðnu ári ákvað rík­is­stjórn sósí­al­ista að klippa fimm núll aft­an af gjald­miðlin­um.

Sam­kvæmt rann­sókn þriggja há­skóla í Venesúela berj­ast 80% heim­ila við dag­legt mataróör­yggi – árið 2017 létt­ust lands­menn að meðaltali um 11 kíló. Um 17% barna eru vannærð. Há­skól­arn­ir hafa unnið að lífs­kjara­rann­sókn­um frá 2014 und­ir heit­inu Encovi (Encu­esta de Condicio­nes de Vida) og ná til um 6.200 ein­stak­linga um land allt. Sex af hverj­um tíu hafa farið hungraðir að sofa þar sem þeir hafa ekki haft efni á mat.

Al­var­legt bak­slag hef­ur orðið í heil­brigðismál­um. Staðan hef­ur ekki verið verri í ára­tugi. Nú er að nýju bar­ist við malaríu, berkla, misl­inga og barna­veiki.

Ólíkt ná­granna­ríkj­un­um hef­ur malaríu­til­fell­um fjölgað veru­lega í Venesúela. Það er af sem áður var þegar landið var í far­ar­broddi í bar­átt­unni við malaríu en árið 1961 tókst að út­rýma sjúk­dómn­um. Ástandið versn­ar stöðugt þar sem skort­ur er á lyfj­um. Jose Fel­ix Oletta, fyrr­ver­andi heil­brigðisráðherra, hef­ur spáð því að ástandið eigi enn eft­ir að versna og seg­ir það orðið svipað því sem það var í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar.

Tekið til fót­anna

Nicolás Maduro tók við for­seta­embætt­inu árið 2013, eft­ir að Chavez féll frá. Hann hélt embætt­inu eft­ir sýnd­ar­kosn­ing­ar á síðasta ári. Í skjóli hæsta­rétt­ar og hers­ins stjórn­ar Maduro land­inu með for­seta­til­skip­un­um. Spill­ing er land­læg á öll­um stig­um stjórn­kerf­is­ins.

Frá 2014 hafa yfir 13 þúsund manns verið hand­tek­in í mót­mæl­um gegn stjórn­völd­um. Um 7.500 hafa verið leyst úr haldi en eiga enn yfir höfði sér sak­sókn. Þvert á alþjóðalög hafa 800 óbreytt­ir borg­ar­ar verið dregn­ir fyr­ir her­dóm­stól frá 2017. Í liðinni viku féllu 26 manns í mót­mæl­um og Sam­einuðu þjóðirn­ar vara við því að ástandið verði stjórn­laust.

Eins og oft áður hafa óbreytt­ir borg­ar­ar tekið til fót­anna til að kom­ast burt úr draumaríki sósí­al­ism­ans sem ein­kenn­ist af hungri, lyfja­skorti, at­vinnu­leysi og vax­andi of­beldi. Á fjórðu millj­ón íbúa hafa flúið land á síðustu árum.

Meiri­hluti þeirra sem hafa flúið land hafa leitað til Kól­umb­íu, en einnig hafa marg­ir farið til Ekvador, Perú og Síle. Í könn­un sem gerð var í lok árs 2017 sagðist um helm­ing­ur íbúa á aldr­in­um 18 til 29 ára vilja yf­ir­gefa landið og 55% millistétt­ar­inn­ar áttu sér þann draum að kom­ast í burtu.

Enn eitt draumaríkið fallið

Juan Guaidó, leiðtogi stjórn­ar­and­stöðunn­ar, hef­ur lýst því yfir að hann hafi tekið tíma­bundið við embætti for­seta af Nicolás Maduro. Hann nýt­ur stuðnings þjóðþings­ins.

Banda­rík­in, fleiri en 12 ríki Suður-Am­er­íku og Kan­ada hafa þegar lýst yfir stuðningi við Guaidó. Um helg­ina lýstu rík­is­stjórn­ir Spán­ar, Þýska­lands, Frakk­lands og Bret­lands því yfir að þau myndu viður­kennda Guaidó sem for­seta ef ekki yrði boðað til nýrra for­seta­kosn­inga inn­an átta daga.

Boðað hef­ur verið til alls­herj­ar­verk­falls í Venesúela í dag. Með því ætla Guaidó og fylg­is­menn hans að auka þrýst­ing­inn á her­inn. Stuðning­ur hers­ins er for­senda þess að Maduro geti setið áfram í embætti en her­inn hef­ur stutt stjórn sósí­al­ista allt frá því að Hugo Chavez komst til valda.

Enn eitt draumaríki sósí­al­ism­ans hef­ur breyst í mar­tröð – auðlegð hef­ur orðið að ör­birgð alþýðunn­ar. Marg­ir vinstri menn á Vest­ur­lönd­um létu glepj­ast, ekki síst stjórn­mála­menn og mennta­menn. Noam Chom­sky, Jeremy Cor­byn og Jesse Jackson voru í hópi aðdá­enda. Í borg kvik­mynd­anna, Hollywood, var Chavez haf­inn upp til skýj­anna. Sean Penn, Oli­ver Stone, Michael Moore og Danny Glover létu blekkj­ast. Nú er þögn þeirra æp­andi.

Hrun sam­fé­lags­ins í Venesúela mun að lík­ind­um ekki sann­færa hina heit­trúuðu um að sósí­al­ism­inn sé veg­ur­inn til glöt­un­ar. Að til­raun­in í Venesúela hafi mistek­ist er ekki sósí­al­ism­an­um að kenna, held­ur kom alþjóðlegt sam­særi (und­ir for­ystu Banda­ríkj­anna) í veg fyr­ir að draumaríkið fengi að lifa og dafna. Og þess vegna verður enn ein til­raun­in gerð.

Hvaða land verður fyr­ir val­inu?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2019.