„Tölurnar sýna að ef við horfum sérstaklega til þeirra sem eru komnir á lífeyrisaldur að okkur hefur tekist að snúa stöðunni áberandi að undanförnu við. Þar hefur kaupmáttaraukningin á hverju ári verið umfram það sem hefur átt við aðra aldurshópa,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á opnum fundi á vegum Sambands eldri sjálfstæðismanna (SES) í Valhöll í hádeginu í dag.
Í erindi sínu kynnti Bjarni nýjan vef sem ríkisstjórnin opnaði á föstudag í síðustu viku (www.tekjusagan.is) þar sem hægt er að sjá og bera saman tekjur Íslendinga eftir tekjuhópum, aldri, búsetu o.fl. Vefurinn er gagnvirkur og þar er hægt að biðja um upplýsingar og láta kerfið reikna fyrir sig ýmis dæmi, ólík ár, aldursbil o.fl.
„Með því sem við erum með á bak við þennan grunn sem eru allar skattaupplýsingar Íslendinga frá 1991 og allar útgreiðslur úr öllum bótakerfum yfir allt þetta tímabil þá erum við í raun og veru með einstakan grunn í höndunum til þess að skoða rauntölur um það hvernig Íslendingum hefur vegnað á þessu árabili,“ sagði Bjarni.
„Það sem að við sjáum enn frekar þegar við köfum dýpra í gögnin er að ef við skoðum tekjulægri hópana þá hafa þeir vegna kjarasamningshækkana á undanförnum árum verið að njóta meiri hækkunar á ráðstöfunartekjum sínum heldur en aðrir hópar. Þetta finnst mér mjög mikilvægt því ég heyri því stöðugt haldið fram í umræðunni að þetta séu hóparnir sem hafi orðið eftir. Það hafi aðrir hópar skilið sig frá hjörðinni og tekið til sín meira af þeim efnahagsávinningi sem við höfum notið að undanförnu og skilið hina eftir. Það er ekki það sem tölurnar eru að sýna okkur,“ sagði ráðherra.
Framboðsskorturinn ekki jafn mikill og menn töldu
Bjarni ræddi einnig nýlegar tillögur að aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði sem átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði skilaði nýlega (sjá hér).
„Sá hópur sem hefur verið þar að störfum skilaði ótrúlega mikilli vinnu á stuttum tíma. Mér finnst líka að myndin fyrir húsnæðismarkaðinn hafi skýrst töluvert mikið. Þegar lagt var af stað með vinnuna má segja að það hafi staðið upp úr að fólk hafi verið sammála með að það vandamál sem menn hafi verið að glíma við hafi verið fyrst og fremst framboðsskortur. Það hafi í sjálfu sér ekki breyst. Það er framboðsskortur. Skortur sem hefur leitt til þess að hér hefur orðið viss markaðsbrestur. Verð á ákveðnum svæðum hefur farið upp úr þakinu á meðan framboð hefur verið of lítið af tegundum íbúða sem mikil eftirspurn er eftir,“ sagði Bjarni.
Hann sagði að þess vegna hafi verið við því að búast að hópurinn myndi koma með tillögur til að ná utan um þennan vanda.
„Hins vegar þegar kafað er dýpra í stöðuna þá hefur það verið megin niðurstaða þessara nýju skýrslu um húsnæðismarkaðinn að framboðsskorturinn er ekki jafn yfirþyrmandi mikill og menn töldu í upphafi. Það er verið að framleiða gríðarlega mikið magn af nýju íbúðarhúsnæð eins og sakir standa og menn sjá fyrir endann á þessu tímabili þar sem skortur einkennir stöðuna,“ sagði Bjarni.
Tillögur um að styrkja stöðu leigjenda
Hann sagði fjölmargar fleiri tillögur vera í skýrslunni sem séu hugsaðar sérstaklega til að bæta almennt réttarstöðuna á húsnæðismarkaðnum.
„Það er bent á leiðir til þess að styrkja stöðu leigjenda en allir átta sig á því að það þarf að vera eitthvað jafnvægi þar á milli til þess að við getum sagt að heilbrigður leigumarkaður geti byggst upp,“ sagði Bjarni.
Fundurinn var afar vel sóttur og eftir framsögu tóku við almennar umræður þar sem ráðherra stóð fyrir svörum. Fundarmenn báru ýmis mál fyrir brjósti, m.a. lífeyrismál, orkumál, hvalveiðar Íslendinga, fjármagnstekjuskatt, bankaskatt, bætur almannatrygginga o.fl.
Fundurinn var liður í reglulegum hádegisfundum SES sem að jafnaði eru haldnir hádeginu á hverjum miðvikudegi yfir vetrartímann.