Að eiga erindi við framtíðina

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Það er langt í frá sjálfgefið eða sjálfsagt að stjórnmálaflokkur lifi og starfi í 90 ár. Til þess þarf stöðugt að hlúa að rótunum – hugmyndafræðinni – aðlagast samtímanum, skynja undirstrauma samfélagsins og hafa kjark og þor til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

Í maí næstkomandi verður haldið upp á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins. Stjórnmálaflokkur er mannanna verk, „skapaður fyrir þá sem fylkja sér um sameiginlega hugsjón og stefnu. Hann er ekki til fyrir sjálfan sig og ef hann höfðar ekki til fólksins í landinu á hann engan tilverurétt,“ sagði Davíð Oddsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Morgunblaðið 25. maí 2004 þegar 75 ára afmæli flokksins var fagnað.

Tilvera Sjálfstæðisflokksins byggist á því að fólkið finni „til samkenndar með grundvallaratriðum stefnu hans um frelsi og sjálfstæði“.

Stjórnmálaflokkur sem ekki hefur burði til að sameina í hugmyndafræði sinni ólíka hagsmuni – smíða brú milli launafólks og atvinnurekenda, milli ungs fólk og þeirra sem eldri eru, milli landsbyggðar og höfuðborgar – verður lítið annað en bandalag sérhagsmuna eða fámennur en oft hávær hópur sem er líkari sértrúarsöfnuði en stjórnmálaflokki. Stjórnmálaflokkur sem er þess ekki umkominn að mynda farveg fyrir samkeppni hugmynda og skoðana mun hægt en örugglega veslast upp, missa þróttinn og deyja. Slíkur flokkur á ekki erindi við framtíðina.

Flokkur tækifæranna

„Við höfum byggt allt okkar starf á trúnni á frelsi einstaklingins,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu á landsfundi í mars á síðasta ári.

„Ég stend hér og segi ykkur að stefna Sjálfstæðisflokksins hefur gert lífið betra fyrir Íslendinga í gegnum tíðina.“

Rauði þráðurinn í hugmyndabaráttu þeirra sem fylgt hafa Sjálfstæðisflokknum að máli er frelsi einstaklingsins og að eitt meginhlutverk stjórnvalda sé að hvetja og styðja við framtakssemi fólks.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir undirstrikaði í framboðsræðu á landsfundi, þegar hún var kjörin varaformaður, að Sjálfstæðisflokkurinn væri flokkur tækifæranna – tækifæra hins venjulega manns:

„Við sjálfstæðismenn eigum erindi við framtíðina af því að við skiljum hvers hún krefst af okkur. Hún krefst þess að einstaklingsfrelsi og athafnafrelsi blómstri sem aldrei fyrr, í allra þágu. Því að þannig nær venjulegt fólk óvenjulegum árangri.“

Orð Þórdísar Kolbrúnar kallast á við skoðanir hugsjónamannsins Birgis Kjaran, sem var þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Birgir lagði áherslu á að einstaklingurinn nyti mannhelgi og að frelsi væri frumréttur hvers og eins, jafnt andlegt sem efnahagslegt frelsi.

„Æðsta takmark samfélags á því að vera að veita einstaklingunum allt það frelsi sem þeir þarfnast til þess að fá að fullu notið hæfileika sinna og mannkosta, án þess að þrengja eða óvirða rétt annarra einstaklinga eða tefla öryggi þjóðarheildarinnar í hættu,“ skrifaði Birgir Kjaran um sjálfstæðisstefnuna fyrir nær 60 árum.

Það var á grunni hugsjóna um frelsi einstaklingsins og mannhelgi hans sem Bjarni Benediktsson eldri minnti á að þjóðfélagi „verður ekki stjórnað með oflæti eða orðaskaki“. Í áramótagrein í Morgunblaðinu 1965 greindi hann hlutverk stjórnvalda og ríkisstjórna ágætlega og sú greining á vel við í dag:

„Oft er sagt, og vissulega með réttu, að veðurfar, gróður og fiskigöngur séu ekki að þakka ríkisstjórn. Gamalkunnugt er, að jafnt rignir á réttláta sem rangláta. En ríkisstjórn ræður því, hvernig hún bregst við atburðunum. Treystir hún eingöngu á forsjá sína og bannar þegnunum að bjarga sér eftir því, sem þeirra eigið vit og þroski segir til um? Eða treystir hún fyrst og fremst á frumkvæði, manndóm og dug borgaranna og telur skyldu sína að greiða fyrir framkvæmdum þeirra, en leggur ekki á þær hömlur og hindranir?“

Ekki okkar frelsi

Það hefur aldrei vafist fyrir sjálfstæðismönnum að svara þeim spurningum sem Bjarni Benediktsson spurði fyrir nær 54 árum. Frá fyrstu tíð hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist fyrir að frelsi einstaklingsins verði aukið á öllum sviðum í þeirri fullvissu að þannig farnist samfélaginu best. Keppikeflið „er frelsi fyrir alla, ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka, sem nota afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum,“ sagði Davíð Oddsson í ræðu í tilefni af 75 ára afmæli:

„Það er ekki okkar frelsi. Við trúum á þau grundvallaratriði sem í frjálshyggjunni búa. Við trúum á þau vegna þess að við vitum að fólkið sjálft á markaðnum, með undraskjótum og einföldum hætti, finnur lausnir á vandamálum sem fjögur þúsund stjórnskipaðar nefndir myndu ekki finna heldur flækja.

Við trúum á lausnir markaðarins en þær leysa ekki allan vanda. Leikreglurnar verða að vera skýrar, ljósar og klárar og sanngjarnar og það verða allir að lúta þeim. Líka þeir sterku. Sjálfstæðisflokkurinn vill sjá um það.“

Þegar sjálfstæðismenn halda upp á 90 ára afmælið í maí komast þeir vart hjá því að svara spurningum um framtíð flokksins. Á landsvísu á flokkurinn töluvert í land að endurheimta fyrri styrk. Margir leita skýringa til hruns fjármálakerfisins og eftirleiks þess. Ekki skal gert lítið úr því en þróunin hófst miklu fyrr. Höfuðvígi flokksins – Reykjavík – féll löngu áður. Þótt tekist hafi að spyrna nokkuð við fótum í síðustu borgarstjórnarkosningum er fylgið langt undir sögulegu meðaltali. Staða meðal ungs fólks – ekki síst í Reykjavík – hefur aldrei verið veikari. Það er af sem áður var þegar ungir kjósendur löðuðust að Sjálfstæðisflokknum, kannski ekki síst vegna þess hve mikil áhrif ungt fólk hafði á störf og stefnu flokksins – allt frá hugmyndum um valddreifingu, opna stjórnsýslu og upplýsingafrelsi, til raunverulegs valfrelsis til menntunar, búsetu og starfa.

Eitt er víst. Sjálfstæðisflokknum hefur ekki tekist að nýta sér góðan árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum frá árinu 2013, þegar flokkurinn myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum. Skuldir ríkisins hafa snarlækkað og þannig er hætt að ganga á lífskjör komandi kynslóða. Við erum þvert á móti farin að byggja aftur upp. Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri. Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri, atvinnuleysi er lítið og verðlag hefur verið stöðugt.

Lífskjör eru með þeim bestu sem þekkjast í heiminum. Ísland er eitt opnasta hagkerfi heims í vöruviðskiptum samkvæmt úttekt Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Á 90 ára afmælinu verðum við, sem skipum sveit kjörinna fulltrúa flokksins á þingi og í sveitarstjórnum, að viðurkenna að okkur hefur ekki tekist að endurnýja sambandið við marga kjósendur. Ástæðurnar eru margar eins og ég hef raunar fjallað um áður.

Hlutverk Sjálfstæðisflokksins er að rækta sambandið við kjósendur – slípa og móta hugsjónir. Þróa hugmyndir í takt við nýja tíma og nýjar áskoranir, án þess að hverfa frá grunngildi um frelsi einstaklingsins. Það þarf hins vegar að fylgja hugmyndunum eftir af ástríðu og sannfæringu. Og þá er gott að hafa í huga orð Bjarna Benediktssonar í áramótaávarpi í Ríkisútvarpinu 1968:

„Engin skömm er að því að falla vegna þess að maður fylgir sannfæringu sinni. Hitt er lítilmótlegt að játast undir það sem sannfæring, byggð á bestu fáanlegri þekkingu, segir að sé rangt.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. janúar 2019.