Aslaug Arna

Aldrei fleiri 100 ára

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Þegar horft er yfir árið 2018 eru margir sem minnast neikvæðra frétta bæði úr alþjóðamálum og innanlandsmálum. Það er að mörgu leyti skiljanlegt því þær eru fyrirferðarmeiri. Stríð og hungur eru fréttnæmari en friður og velmegun. Það er oft gott að skoða hlutina í víðara samhengi og láta staðreyndir tala sínu máli. Það sem við fengum litlar eða engar fréttir af á árinu sem nú er liðið er að enn eitt árið jukust lífslíkur manna í heiminum, ungbarnadauði hélt áfram að minnka, þeim sem létust í stríði eða hryðjuverkum fækkaði frá fyrri árum, menntun stúlkna í samanburði við menntun drengja hélt áfram að aukast og þeim sem búa við fátækt fækkaði daglega um 127.000 í heiminum öllum. Við þetta má bæta að í vikunni var greint frá því að aldrei hefðu fleiri náð 100 ára aldri hér á landi. Það er lítil frétt um stóra framvindu til hins betra.

Upplýst umræða þarf að byggja á staðreyndum. Við sjáum fjölmörg dæmi erlendis af hópum sem hafna staðreyndum og ógna þar með upplýstri umræðu. Án hennar er og og verður erfitt að taka skynsamar ákvarðanir og meta með raunsæjum hætti hvað framtíðin ber í skauti sér.

Þróun starfa er eitt dæmi. Í dag eru til störf sem voru ekki til fyrir tíu árum og eftir önnur tíu ár verða til enn fleiri störf sem eru ekki til í dag. Á sama tíma hafa önnur störf lagst af og við vitum að á komandi árum mun sú þróun halda áfram. Við höfum enn þá tækifæri til að þróa menntastofnanir sem taka mið af þessari þróun en verkefnið er öllu erfiðara fyrir þá sem eru fyrir á vinnumarkaði. Þar þurfa allir að leggjast á eitt til að finna lausnir, fjölga tækifærum og þannig mætti áfram telja.

Það er vissulega sársaukafull þróun á meðan hún gengur yfir. Í stað þess að horfa framan í þann veruleika sem við blasir kjósa margir stjórnmálamenn þó að setja kíkinn á blinda augað og boða frekari viðskiptahömlur, tolla og annað til að minnka alþjóðavæðingu og viðskiptafrelsi. Það er sagt og gert í nafni þess að vernda störf heima fyrir án þess að skoða hverjar afleiðingarnar kunna að verða til lengri tíma. Sá stjórnmálamaður sem setur á auknar hömlur á viðskiptafrelsi í dag verður að öllum líkindum ekki til staðar eftir 20 ár til að taka afleiðingunum.

Aftur komum við að því sem ég nefndi hér í upphafi. Þróunin í heiminum er ekki alltaf sú sem við fáum að sjá í fréttum. Heimurinn er sífellt að verða betri sem að stórum hluta skýrist af aukinni alþjóðavæðingu og milliríkjaviðskiptum. Við vitum samt að hagsæld síðustu 200 ára eða svo byggir að mestu leyti á vaxandi viðskiptafrelsi og um leið vaxandi viðskiptum milli landa. Við þurfum að finna leiðir til að taka á móti framtíðinni, ekki leiðir til þess að stöðva hana.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2019.