Þetta snýst allt um lífskjörin

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Það er styrkur að geta tekist á við óvissu framtíðarinnar af forvitni og án ótta. Við getum mætt nýju ári með bjartsýni en um leið verið raunsæ gagnvart þeim verkefnum sem þarf að leysa – sum eru flókin og erfið, önnur lítilfjörleg og næstum léttvæg.

Óvissa er hluti af lífinu, þar sem ekkert er öruggt nema skattar og dauði svo vitnað sé í orð Benjamins Franklin. Flest reynum við að lágmarka óvissuna og gera áætlanir um framtíðina. Þeir eru til sem reyna að nýta sér óvissu til að skara eld að eigin köku eða fella pólitískar keilur. Staðreyndir skipta litlu og allt er gert tortryggilegt. Markmiðið er að reka fleyg milli launafólks og atvinnurekenda – kljúfa þjóðina. Átök eru boðuð í stað þess að mynda samstöðu um að nýta þau ótrúlegu tækifæri sem eru til staðar til að auka lífsgæði og lífskjör allra.

Það reynir á ríkisstjórnina

Á nýju ári reyndi á atvinnurekendur ekki síður en leiðtoga launafólks. Þeir hafa undirgengist þá skyldu að ná samningum sem byggjast á efnahagslegum veruleika og tryggja þar með bætt lífskjör. Og það mun reyna á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana. Með ýmsum hætti getur ríkisstjórnin búið til jarðveg fyrir kjarasamninga en handan við hornið bíða önnur risavaxin verkefni: Ný lög um Seðlabanka Íslands og mótun nýrrar peningastefnu. Ákvörðun um skipulag fjármálamarkaðarins þar sem ríkið verður með skipulegum hætti að draga úr áhættu skattgreiðenda. Mótun samgöngustefnu til langs tíma. Stofnun Þjóðarsjóðs. Markviss heilbrigðisstefna til framtíðar. Átak í húsnæðismálum með raunverulegt valfrelsi að leiðarljósi. Uppstokkun á tekjuskattskerfi einstaklinga – ekki til að auka álögur heldur að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem lakast standa. Verkefnin eru mörg.

Á sama tíma liggur fyrir að ekki verður gengið lengra í aukningu útgjalda ríkisins. Þess vegna þarf að tryggja hagkvæmari nýtingu sameiginlegra fjármuna. Það verður fyrst og síðast gert með því að ýta undir nýsköpun og nýja hugsun í opinberum rekstri, útvistun verkefna og auknu samstarfi hins opinbera og einkaaðila. Með því að vinna skipulega að því að innleiða rafræna stjórnsýslu er ekki aðeins hægt að bæta þjónustu við borgarana heldur einnig lækka kostnað.

Við erum svo gæfusöm þjóð að eiga marga einstaklinga sem eru tilbúnir til að leggja allt undir til að byggja upp fyrirtæki. Sumir eru að brjóta múra úreltrar hugsunar og skipulagningar, eins og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er að gera með fjarþjónustufyrirtækinu Kara Connect. Í samvinnu við nýsköpunarfyrirtæki geta ríki og sveitarfélög slegið margar flugur í einu höggi; aukið hagkvæmni, gert þjónustuna betri og markvissari og ýtt undir sköpunarkraftinn sem liggur að baki nýjum hugmyndum frumkvöðla. Samþætting og samvinna hins opinbera og einkaaðila hefur og getur skilað góðum árangri, ekki síst í heilbrigðisþjónustu og menntakerfinu.

Ekki aðeins launaumslagið

Lífskjör launafólks ráðast ekki aðeins af fjölda króna í launaumslaginu eftir að skattar og gjöld hafa verið greidd. Lífskjörin ráðast ekki síður af því hvernig til tekst við alla stjórnsýslu hins opinbera – hversu hagkvæm og góð þjónustan er. Með sama hætti og rekstur ríkis og sveitarfélaga hefur áhrif á lífskjörin hefur nýting sameiginlegra eigna það einnig.

Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem var kynnt fyrir skömmu, er dregin upp skýr mynd af þeim viðfangsefnum sem blasa við. Um þau verður fjallað síðar en vert er að draga fram ábendingar sem dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, setur fram í fylgiriti. Ríkið er umsvifamikið á fjármálamarkaði og hefur bundið þar mikla fjármuni. Um 330 milljarða í tveimur bönkum og 120 milljarða í þremur lánasjóðum. Auk þess er ríkið óbeint eða beint í ábyrgðum fyrir 857 milljarða.

Líkt og Ásgeir er ég sannfærður um að þeim 330 milljörðum sem bundnir eru í Íslandsbanka og Landsbanka væri betur varið í raunverulega samfélagslega innviði – skóla, sjúkrahús og vegi.

Veggjöld og nýting eigna

Þegar þingmenn takast á við að móta samgönguáætlun og svara þeirri spurningu með hvaða hætti eigi að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir, er ekki hægt að líta fram hjá gríðarlegum fjármunum sem eru fastir í öðrum eignum en þeim sem skipta almenning mestu máli.

Um það verður ekki deilt að öflugt samgöngukerfi er ein stoðin undir samkeppnishæfni atvinnulífsins og forsenda þess að fólk hafi í reynd val um hvar á landinu það vill búa. Samgöngukerfið er spurning um lífsgæði og lífskjör.

Uppbygging samgöngukerfisins hefur kallað á nýjar hugmyndir um hvernig standa skuli að fjármögnun framkvæmda. Í einfaldleika sínum er ég hrifinn af þeirri hugmyndafræði að menn borgi fyrir það sem þeir nota. Álagning veggjalda getur því verið álitlegur kostur. En ákvörðun um veggjöld verður ekki tekin án þess að fram fari endurskoðun á gjalda- og skattakerfi sem bílaeigendur búa við, um leið og tryggt er að nýting annarra eigna ríkisins sé með þeim hætti að hún þjóni hagsmunum almennings.

Hvernig ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum tekst til við að leysa verkefnin ræður miklu um lífskjör á komandi árum. Skynsamlegir kjarasamningar eru mikilvægir en duga ekki einir og sér til að tryggja stöðugleika og bættan hag alls almennings.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. janúar 2019.