Ályktun frá stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík

Ályktun frá stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík:

Stjórn Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík fordæmir þau forkastanlegu vinnubrögð Reykjavíkurborgar sem útlistuð eru í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um Nauthólsveg 100. Er það krafa Varðar að borgarstjóri axli fulla ábyrgð á þessu máli og hvetur Vörður hann til að segja af sér embætti, innantóm loforð um bætta stjórnunarhætti eða skipan nýrra starfshópa duga hreinlega ekki í kjölfar þess áfellisdóms sem skýrsla innri endurskoðunar svo sannarlega er.

Fyrir liggur að við framkvæmd þessa var brotið gegn innkaupareglum Reykjavíkurborgar, undanþáguheimilda innkauparáðs var ekki aflað, en borginni ber skylda til að afla þeirra. Þá liggur jafnframt fyrir að borgin eyddi mikilvægum gögnum í tengslum við málið, en slík vinnubrögð eru ekki íslensku stjórnvaldi til sóma.

Ábyrgð æðstu yfirmanna borgarinnar í máli þessu er bæði algjör og vítaverð, það er því lágmarkskrafa að þeir axli hana af fullri einlægni og stígi til hliðar.