Hugleiðing á aðventu um gömul gildi og ný

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Á aðventunni er merkilegt að hugsa til þess að Nýja testamentið er miklu eldra en Gamla testamentið var á dögum Jesú. Frá sjónarhóli nútímans er því ekki svo mikill munur á aldri þeirra. Samt finnst okkur umfjöllunarefni Gamla testamentisins á borð við syndaflóð, útvaldar þjóðir, barnafórnir, engisprettuplágur og fleira í þeim dúr vera ansi fjarlægt okkur, og sama má segja um boðskap þess um „auga fyrir auga“, á meðan Nýja testamentið stendur okkur aftur á móti miklu nær og gildir ennþá sem grundvöllur siðferðis okkar.

Afstaðan til breytinga

Sú staðreynd er ennþá merkilegri þegar haft er í huga að viðmið okkar um réttlæti, mannréttindi, jafnrétti, virðingu, velsæmi og fleira eru sífellt að breytast. Nánast frá ári til árs. Samfélag okkar breytist svo hratt að við hreinlega göpum af undrun yfir mörgu því úrelta sem við lesum í fimmtíu ára gömlum dagblöðum. Samt lifir tvö þúsund ára gamall texti sem almennt viðurkennd leiðbeining um gott siðferði og æskilega breytni.

Hvað segir þetta okkur um breytingar? Eigum við að fagna þeim eða eigum við að spyrna við fótum? Eigum við að verja gömul gildi eða taka nýjum opnum örmum? Eigum við að vera róttæk eða íhaldssöm?

Það að tvö þúsund ára texti skuli ennþá vera viðurkenndur grundvöllur siðferðis okkar hlýtur að mæla með íhaldssemi og hvetja okkur til að verja gömul gildi og sporna við breytingum. En það að okkur þyki fimmtíu ára gömul dagblöð (og jafnvel yngri) vera uppfull af úreltum viðhorfum hlýtur aftur á móti að mæla með róttækni og hvetja okkur til að fagna nýjum gildum og styðja breytingar.

Niðurstaðan er að við þurfum að vega og meta hvert tilvik fyrir sig. Að mínu mati kennir sagan okkur að ný viðhorf séu oftar góð en slæm. Annars væri saga mannkynsins ekki sú saga framfara sem hún er. En reglan er ekki algild og við getum ekki gefið okkur að allar nýjungar séu eftirsóknarverðar. Af og til koma fram ný viðhorf sem eru hættuleg. Þau eru þá annað hvort slegin niður og gleymast eða ná útbreiðslu og keyra okkur út af sporinu. Orwell spáði réttilega fyrir um slíka atburði í bókinni „1984“, svo að eitt dæmi sé nefnt.

Að finna róttækni í hinu gamla

Þó að Jesú sé í dag ímynd hinna „gömlu og góðu gilda“ er hollt að hafa í huga að hann var sjálfur róttækur. Hið fræga tilsvar hans um að sá syndlausi skyldi kasta fyrsta steininum, sem fékk viðstadda ofan af því að grýta konu til dauða, var mjög róttækt og í beinni andstöðu við skýran lagabókstaf Gamla testamentisins.

Meira að segja Gamla testamentið, mögulega mesta íhald sem fyrirfinnst í vestrænni menningu, er að sumu leyti róttækt og framsækið, jafnvel á mælikvarða nútímans. Reglan um að elska náungann eins og sjálfan sig er upprunalega þaðan, þó að hún eigi frægð sína jólabarninu að þakka. Í því er líka að finna ítrekuð fyrirmæli um réttindi útlendinga sem þættu ábyggilega nokkuð róttæk væru þau skrifuð í stjórnarsáttmála í dag. Þá má nefna að reglan um „auga fyrir auga“, sem okkur finnst grimmileg í dag, var að öllum líkindum róttæk og framsækin hófsemdarregla á sínum tíma, sett til að knýja menn til að hverfa frá stjórnlausum hefndum og hemja sig.

Veitum gleði og sýnum kærleika

Þó að Ísland sé í fremstu röð á flesta mælikvarða lífsgæða verðum við öll að leggjast á árarnar og halda áfram að berjast fyrir betra samfélagi. Eitt mikilvægasta verkefni okkar er að stuðla að gleði og hamingju, okkar eigin og annarra, með hegðun okkar og framferði frá degi til dags. Burtséð frá trú eða trúleysi hvers og eins þá veitir afmælisbarn mánaðarins ennþá merkilega góða leiðbeiningu um hvernig við getum farið að því.

Við höfum á undanförnum mánuðum farið í gegnum erfiða umræðu um virðingu og mörk í samskiptum fólks, sem ekkert lát virðist á. Ég trúi að þessi umræða sé til marks um jákvæðar breytingar í gildismati og viðmiðum. Um leið verðum við að rifja upp gömlu gildin um að elska náungann og sýna honum kærleika og samkennd.

Nýtum hátíðina til að láta gott af okkur leiða, sýna öðrum kærleika, þakka fyrir það sem við höfum og vera almennileg hvert við annað. Hver veit nema við getum jafnvel vanið okkur á það

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2018.