Kaupmáttur ellilífeyrisþega stórvaxið

„Ef við horf­um aft­ur í tím­ann hef­ur okk­ur tek­ist að styðja miklu bet­ur við þetta fólk. Það kalla ég ár­ang­ur í stjórn lands­mála. Við erum að láta ávinn­ing­inn af efna­hags­upp­sveifl­unni rata þangað sem við sögðumst alltaf ætla að láta hann rata. Að all­ir myndu koma með á flóðinu. Sjá til þess að það væru ekki fáir út­vald­ir sem myndu skara fram úr. Það kost­ar, það kost­ar að gera vel við marga,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins í útvarpsþættinum Þingvöllum á K100,5 í gær um almannatryggingakerfið. Bjarni var þar gestur Páls Magnússonar.

Bjarni sagði að í ár sé verið að greiða á bilinu 70-80 milljarða króna meira á ári til þessa lífeyrisþega og örorkulífeyrisþega en var fyrir átta árum síðan.

„Kaup­mátt­ur bóta elli­líf­eyr­isþega hef­ur stór­vaxið, um­fram það sem hef­ur gerst hjá öðrum þjóðfé­lags­hóp­um,“ seg­ir Bjarni.

Sjálfstæðisflokkurinn sögulega breiður flokkur

„Það ræðst á end­an­um al­farið á því hvernig flokkn­um tekst að halda tal­sam­bandi, trausti og trúnaði við kjós­end­ur í land­inu. Það var vitað að þetta yrði erfitt eft­ir hrunið en þá hafði Sjálfstæðis­flokk­ur­inn setið sam­fellt í rík­is­stjórn frá 1991. Árið 2018 er staðan að Sjálf­stæðisflokk­ur­inn hef­ur verið sam­fellt í rík­is­stjórn frá 1991 fyr­ir utan árið 2009 til 2013,“ seg­ir Bjarni spurður um hvort það væri liðin tíð að Sjálfstæðisflokkurinn næði 30-40% fylgi í þingkosningum. „Ég held að allt sé mögu­legt,“ sagði Bjarni.

Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum tíðina sögulega verið breiður flokkur. Flokkur sem hafi fundið breiðar lausnir sem höfði til flestra, minni ríkisumsvif, einstaklingsfrelsi, gott velferðarkerfi og í einkaframtakinu þar sem einstaklingurinn fær að spreyta sig við verðmætasköpun.

Bjarni benti á að atvinnuleysi væri nær ekkert í dag, fjölbreyttari störf verði til með vaxandi nýsköpunarstarfi, efra VSK-þrepið hafi aldrei verið lægra og að á Íslandi séu hvað minnstar tillahindranir. Það skili sér beint í vasa neytenda. Vísaði Bjarni þar m.a. til lægri ferða í raftækjum, skóm og fatnaði.

Sagði Bjarni að þó svo að ríkisútgjöld í krónum væru að aukast þá væru ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu ekki að aukast. Þjóðarkakan sé að stækka og það gefi svigrúm til betri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn leggi þó mikla áherslu á að tryggja góða og hagkvæma ráðstöfun á ríkisfé og sagði einkarekstur af hinu góða.

„Það er grund­vall­ar­stefna að há­marka nýt­ingu op­in­bers fjár. Reyna að laða fram sam­keppni og tryggja há­marks­nýt­ingu rík­is í til­tek­in verk­efni,“ sagði Bjarni.

Viðtalið í heild má finn á vef mbl.is hér.