„Ef við horfum aftur í tímann hefur okkur tekist að styðja miklu betur við þetta fólk. Það kalla ég árangur í stjórn landsmála. Við erum að láta ávinninginn af efnahagsuppsveiflunni rata þangað sem við sögðumst alltaf ætla að láta hann rata. Að allir myndu koma með á flóðinu. Sjá til þess að það væru ekki fáir útvaldir sem myndu skara fram úr. Það kostar, það kostar að gera vel við marga,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í útvarpsþættinum Þingvöllum á K100,5 í gær um almannatryggingakerfið. Bjarni var þar gestur Páls Magnússonar.
Bjarni sagði að í ár sé verið að greiða á bilinu 70-80 milljarða króna meira á ári til þessa lífeyrisþega og örorkulífeyrisþega en var fyrir átta árum síðan.
„Kaupmáttur bóta ellilífeyrisþega hefur stórvaxið, umfram það sem hefur gerst hjá öðrum þjóðfélagshópum,“ segir Bjarni.
Sjálfstæðisflokkurinn sögulega breiður flokkur
„Það ræðst á endanum alfarið á því hvernig flokknum tekst að halda talsambandi, trausti og trúnaði við kjósendur í landinu. Það var vitað að þetta yrði erfitt eftir hrunið en þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn setið samfellt í ríkisstjórn frá 1991. Árið 2018 er staðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið samfellt í ríkisstjórn frá 1991 fyrir utan árið 2009 til 2013,“ segir Bjarni spurður um hvort það væri liðin tíð að Sjálfstæðisflokkurinn næði 30-40% fylgi í þingkosningum. „Ég held að allt sé mögulegt,“ sagði Bjarni.
Bjarni sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í gegnum tíðina sögulega verið breiður flokkur. Flokkur sem hafi fundið breiðar lausnir sem höfði til flestra, minni ríkisumsvif, einstaklingsfrelsi, gott velferðarkerfi og í einkaframtakinu þar sem einstaklingurinn fær að spreyta sig við verðmætasköpun.
Bjarni benti á að atvinnuleysi væri nær ekkert í dag, fjölbreyttari störf verði til með vaxandi nýsköpunarstarfi, efra VSK-þrepið hafi aldrei verið lægra og að á Íslandi séu hvað minnstar tillahindranir. Það skili sér beint í vasa neytenda. Vísaði Bjarni þar m.a. til lægri ferða í raftækjum, skóm og fatnaði.
Sagði Bjarni að þó svo að ríkisútgjöld í krónum væru að aukast þá væru ríkisútgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu ekki að aukast. Þjóðarkakan sé að stækka og það gefi svigrúm til betri þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn leggi þó mikla áherslu á að tryggja góða og hagkvæma ráðstöfun á ríkisfé og sagði einkarekstur af hinu góða.
„Það er grundvallarstefna að hámarka nýtingu opinbers fjár. Reyna að laða fram samkeppni og tryggja hámarksnýtingu ríkis í tiltekin verkefni,“ sagði Bjarni.
Viðtalið í heild má finn á vef mbl.is hér.