Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar samþykkt

„Þetta mál er til stórra bóta. Það er verið að færa álagninguna nær í tíma þannig að hún endurspegli afkomu greinarinnar betur en hingað til hefur verið gert. Það kann vel að vera að þetta leiði til lækkunar á veiðigjöldum. Þá endurspeglar það verri afkomu greinarinnar. Ég vona svo sannarlega að veiðigjöldin hækki vegna þess að það mun þá bera vott um það að þessi grundvallaratvinnugrein býr við betri hag en hún hefur gert hingað til,“ sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við atkvæðagreiðslu um veiðigjaldafrumvarpið sem samþykkt var á Alþingi fyrr í dag með 32 atkvæðum gegn 16. Tíu þingmenn sátu hjá.

Með lögunum er álagningu veiðigjalda breytt á þann veg að álagning er færð nær í tíma. Með því endurspegla veiðigjöldin betur afkomu útgerðarinnar. Álagningin mun byggja á ársgömlum gögnum í stað tveggja ára líkt og tíðkast hefur fram til þessa. Auk þess verður veiðigjaldanefnd lögð niður og álagningin færð til ríkisskattstjóra.

Sjá feril málsins á Alþingi hér.