„Framtíðin hefur aldrei verið jafn björt!“

Fjárlög fyrir árið 2019 voru samþykkt á Alþingi á föstudag, en það er í fyrsta sinn síðan 2011 sem fjárlög eru samþykkt í fyrstu heilu viku desember, eins og kveðið er á um í þingskapalögum skv. því sem segir á vef fjármálaráðuneytisins.

„Mjög ánægður með að hafa fengið samþykkt fjárlög 2019 í dag. Sterk staða ríkissjóðs birtist í lægri skuldum ár eftir ár. Við styðjum betur við tekjulága, léttum tryggingagjaldi af fyrirtækjum, aukum við persónuafslátt og hækkum fæðingarorlofsgreiðslur,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á facebooksíðu sinni í kjölfar atkvæðagreiðslunnar á föstudag.

Þá sagði hann að meira væri fjárfest í vegakerfinu, nú styttist í nýjan Herjólf og þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna. Heilbrigðis- og menntakerfin væru styrkt og unnið væri markvisst að stafrænni opinberri stjórnsýslu.

„Framtíðin hefur aldrei verið jafn björt!“ sagði ráðherra.

Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 3. Í atkvæðaskýringu við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins sagði Bjarni að staða ríkissjóðs hefði aldrei verið betri í raun. Þá sagði hann einnig að landsframleiðsla hefði aldrei mælst hærri og að við hefðum verið að lækka skuldir og búa í haginn fyrir framtíðina. Hann sagði einnig að með fjár­laga­frum­varp­inu væri lagður grunnur að því að viðhalda því góða ástandi sem hafi verið í efna­hags­mál­um í land­inu.

Afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs verður 1% af vergri landsframleiðslu eða tæplega 29 milljarðar króna. Það er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar.

Veruleg aukning til velferðarmála

Á næsta ári aukast framlög til heilbrigðismála. Þar vega þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala og renna 4,7 milljarðar króna í þær en auk þess aukast framlög vegna byggingar og rekstrar hjúkrunarheimila. Hækkun framlaga til heilbrigðismála milli 2018 og 2019 nemur 9,7 milljörðum króna. Einnig er verulega aukið við framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála. Þar er hækkun í heild 11,5 milljarðar króna.

Framlög til samgöngu- og fjarskiptamála aukin um 9%

Áfram verður lögð áhersla á fjárfestingar í innviðum. Auk uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála. Þar er fyrst og fremst um að ræða sérstakt átak í samgöngumálum á árunum 2019-2021 sem fjármagnað verður með arðgreiðslum fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að framlög til samgöngu- og fjarskipta­mála verði aukin um 9% á árinu 2019 en framlög til málaflokksins verða ríflega 42,4 milljarðar króna.

Af öðrum stærri fjárfestingarverkefnum má nefna fyrstu framlög til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, sem gert er ráð fyrir að verði afhentar árið 2022, auk uppbyggingar Húss íslenskunnar.

Heildargjöld ríkissjóðs hækka um 7% að nafnvirði frá fyrra ári, eða um ríflega 56 milljarða króna. Á móti er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs aukist um tæplega 52 milljarða, segir í frétt á vef fjármálaráðuneytisins. Er það við efri mörk mögulegs útgjaldavaxtar en þar segir að útgjöld verði endurmetin reglulega með það að markmiði að fjármunum sé ráðstafað með sem bestum hætti.

Frétt á vef fjármálaráðuneytisins má finna hér.

Upplýsingar um fjárlagafrumvarið á vef Alþingis má finna hér.