Fullveldi og fjárhagslegt sjálfstæði

Óli Björn Kárason alþingismaður:

„Í dag hefst nýr þátt­ur í sögu þjóðar­inn­ar. Hún er viðurk­end full­veðja þjóð. En um leið áskotn­ast henni skyld­ur, sem hún að vísu hef­ir altaf haft, að eig­in áliti, en eigi fengið færi á að rækja, vegna for­ráða sam­bandsþjóðar­inn­ar. Í dag stönd­um vér aug­liti til aug­lit­is við heim­inn sem Íslend­ing­ar en ekki sem Dan­ir, – á eig­in ábyrgð, en ekki ann­ara. Í dag fá Íslend­ing­ar það hlut­verk, að halda uppi sæmd yngsta rík­is­ins í heim­in­um. Og von­andi finn­ur öll þjóðin til vand­ans, sem þeirri veg­semd fylg­ir, til ábyrgðar­hlut­ans, sem fall­inn er oss í skaut með sam­bands­lög­un­um nýju. Það er eigi minna um vert, að kunna að gæta feng­ins fjár en að afla þess.“

Þannig sagði Morg­un­blaðið frá 1. des­em­ber 1918 á forsíðu. Þá herjaði spænska veik­in á Íslend­inga. Talið er að 484 hafi lát­ist úr veik­inni, þar af 258 í Reykja­vík. En ekk­ert kom í veg fyr­ir full­veldið – ekki Kötlugos, vetr­ar­hörk­ur eða al­var­leg far­sótt.

Hátíðar­höld­um var stillt í hóf og voru „eng­in í bæn­um önn­ur en þau, að stjórn­ar­ráðið hef­ir ákveðið að rík­is­fáni Íslands skuli dreg­inn upp fyrsta sinni með tölu­verðri viðhöfn“, eins og sagði í Morg­un­blaðinu. En bjart­sýn­in var mik­il og von­ir voru bundn­ar við að nýir og betri tím­ar fyr­ir alla alþýðu væru hand­an við hornið.

Frá ör­birgð til bjargálna

Varla gat nokk­ur látið sig dreyma árið 1918 um að öld síðar yrði þjóðin kom­in í hóp mestu vel­meg­un­arþjóða heims. Ferðalag okk­ar Íslend­inga frá full­veldi hef­ur verið æv­in­týri lík­ast, þótt oft hafi gefið á bát­inn og það hressi­lega. Okk­ur hef­ur tek­ist að byggja upp öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag en á sama tíma haldið tryggð við menn­ingu, tungu og sögu.

Árið 1918 voru Íslend­ing­ar aðeins um 91 þúsund en eru nú rúm­lega 355 þúsund. Um 58% lands­manna bjuggu í dreif­býli en aðeins 5% í dag. Um 40% unnu við land­búnað borið sam­an við 2% í dag.

Lífs­kjör al­menn­ings eru allt önn­ur. Húsa­kost­ur er með því besta sem þekk­ist í heim­in­um en fyr­ir einni öld bjuggu 45% lands­manna enn í torf­bæj­um. Ein fá­tæk­asta þjóð Evr­ópu hef­ur brot­ist úr ör­birgð til bjargálna, byggt upp eitt öfl­ug­asta heil­brigðis­kerfi heims, virkjað iður jarðar og fall­vötn­in, komið á fót öfl­ugu mennta­kerfi og ofið ör­ygg­is­net með al­manna­trygg­ing­um.

Lífs­lík­ur eru allt aðrar en fyr­ir 100 árum. Á full­veld­is­ár­inu voru lífs­lík­ur karla 53 ár og kvenna 58 ár. Nú eru lífs­lík­ur karla 80,7 ár og kvenna 83,7 ár. Fyr­ir 100 árum lést nær tutt­ug­asta hvert barn á fyrsta ári. Ung­barnadauði er svo til óþekkt­ur í sam­fé­lagi nú­tím­ans.

Þótt mörg­um finn­ist á stund­um hægt miða í jafn­rétt­is­bar­áttu hef­ur okk­ur Íslend­ing­um fleytt áfram. At­vinnuþátt­taka kvenna hef­ur tvö­fald­ast á 100 árum. Kon­ur hafa sótt fram á flest­um sviðum. Vorið 1918 braut­skráðust 24 karl­ar og tvær kon­ur með stúd­ents­próf á Íslandi eða 1,6% af fjölda tví­tugra lands­manna. Tæp­um hundrað árum síðar eða árið 2016 var hlut­fallið 73,7% en það ár braut­skráðust 1.935 kon­ur á móti 1.486 körl­um, sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Allt fram til 1928 var Mennta­skól­inn í Reykja­vík eini skól­inn sem braut­skráði stúd­enta. Árið 2016 voru skól­arn­ir 34.

Árið 2016 luku nær helm­ingi fleiri kon­ur há­skóla­prófi en karl­ar.

Á vef Hag­stof­unn­ar um sögu­leg­ar hag­töl­ur kem­ur fram að árið 1918 fór stærst­ur hluti út­gjalda ís­lenskra heim­ila í mat­væli eða um helm­ing­ur. Hlut­fall mat­vöru af út­gjöld­um heim­il­anna er komið niður í 13%. Íslensk heim­ili verja hærra hlut­falli út­gjalda í hús­næði en árið 1918 þegar helstu út­gjaldaliðir voru, auk mat­vöru, fatnaður og eldsneyti. Í dag fell­ur stærst­ur hluti út­gjalda heim­il­anna und­ir önn­ur út­gjöld eða rúm­ur helm­ing­ur. Önnur út­gjöld eru t.d. ferðir og flutn­ing­ar, tóm­stund­ir og menn­ing, hót­el og veit­ingastaðir og hús­gögn, heim­il­is­búnaður o.fl. Sam­setn­ing út­gjalda sýn­ir vel hvernig lífs­kjör­in hafa gjör­breyst og batnað.

Fjár­hags­legt sjálf­stæði

Á forsíðu Morg­un­blaðsins 15. des­em­ber 1918 var full­veld­inu fagnað en varað við því að „vér ger­umst dremb­ilát­ir og mikl­ir á lofti, eins og viður­kenn­ing full­veld­is­ins hefði gert oss að stórþjóð“. Síðan seg­ir orðrétt:

„Vér erum sama smáþjóðin eft­ir sem áður, og verðum að gjalda var­hug við því að „slá eigi svo um oss“, að eft­ir nokk­ur ár verði þrota­bú hjá oss. Full­veldi er ágætt, en því aðeins er það al­gert, að fjár­hags­legt sjálf­stæði fylgi. Verðum vér því að sníða oss stakk eft­ir vexti og er það eng­in mink­un. Það verða all­ar smáþjóðir að gera. Hitt er oss eng­inn frami, að vera mikl­ir á lofti, og hefn­ir sín sjálft.“

Höf­und­ur­inn – Ei­rík­ur (sem ég þekki eng­in deili á) kom að kjarna máls. Full­veldi er lít­ils virði ef fjár­hags­legt sjálf­stæði er ekki tryggt. Það er ein­mitt þess vegna sem Íslend­ing­ar hafa lagt áherslu á að tryggja yf­ir­ráð yfir auðlind­um lands og sjáv­ar. Útfærsla land­helg­inn­ar fyrst í fjór­ar míl­ur og í áföng­um í 200 míl­ur var hluti af full­veld­is­bar­áttu og mik­il­væg for­senda fyr­ir efna­hags­legu sjálf­stæði.

Friðsam­leg og opin sam­skipti við aðrar þjóðir hafa verið grunn­stef í ut­an­rík­is­stefnu lands­ins. Og þótt stund­um hafi staðið tæpt höf­um við borið gæfu til að standa vörð um hags­muni okk­ar. Árið 1946 gerðist Ísland aðili að Sam­einuðu þjóðunum og nokkr­um árum síðar skipaði Ísland sér í raðir frjálsra lýðræðisþjóna með þátt­töku í Atlants­hafs­banda­lag­inu og varn­ar­samn­ingi við Banda­rík­in.

Fjár­hags­legt sjálf­stæði og efna­hags­leg vel­sæld Íslend­inga hef­ur byggst greiðum aðgangi að er­lend­um mörkuðum. Þess vegna hafa viðskipta­samn­ing­ar við önn­ur lönd verið mik­il­væg­ir. Skref­in í átt að opn­ara sam­fé­lagi og frjáls­um viðskipt­um hafa sum verið lít­il en önn­ur stór. Árið 1964 fékk Ísland aðild að GATT – al­menna sam­komu­lag­inu um tolla og viðskipti. Sex árum síðar var aðild­in að EFTA tryggð og fyr­ir 25 árum tók EES-samn­ing­ur­inn gildi. Samn­ing­ur­inn hef­ur tryggt Íslandi ör­ugg­an og nauðsyn­leg­an aðgang að mik­il­væg­um er­lend­um mörkuðum og gefið Íslend­ing­um tæki­færi í lönd­um Evr­ópu sem þeir ann­ars hefðu aldrei fengið, jafnt til mennta sem vinnu.

Far­sæld en ekki án kostnaðar

Í fjórðung þess tíma sem við höf­um búið við full­veldi hef­ur EES-samn­ing­ur­inn verið í gildi. Í flestu hef­ur hann fært okk­ur far­sæld en hann hef­ur ekki verið án kostnaðar. Stór hluti þess kostnaðar hef­ur fallið vegna okk­ar eig­in sinnu­leys­is við að gæta hags­muna okk­ar í sam­skipt­um við Evr­ópu­sam­bandið í gegn­um EES.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hef­ur oft­ar en einu sinni vakið at­hygli á nauðsyn þess að Alþingi taki til skoðunar stöðuna á grund­velli EES-samn­ings­ins. Íslend­ing­ar standi frammi fyr­ir því „í hverju mál­inu á eft­ir öðru að Evr­ópu­sam­bandið krefst þess þegar við tök­um upp Evr­ópu­gerðir, til­skip­an­ir eða reglu­gerðir, að við Íslend­ing­ar fell­um okk­ur við að sæta boðvaldi, úr­slita­valdi, sekt­ar­ákvörðunum eða með öðrum hætti skip­un­um frá alþjóðastofn­un­um sem Evr­ópu­sam­bandið hef­ur komið sér upp en við eig­um enga aðild að“. Með þessu sé grafið und­an grunnstoðum EES-samn­ings­ins.

Í ág­úst síðastliðnum hélt ég því fram á þess­um stað, að nauðsyn­legt sé að skýrt ákvæði komi í stjórn­ar­skrá um framsal valds – ekki til að út­víkka heim­ild­ir held­ur til að þrengja þær. Framsal verði að ein­skorða við af­mörkuð svið, byggja á þeirri for­sendu að ís­lenska ríkið hafi jafna stöðu á við önn­ur ríki í alþjóðlegu sam­starfi og að framsal sé alltaf aft­ur­kræft. Þá verði framsal að styðjast við auk­inn meiri­hluta Alþing­is – a.m.k. 2/​3 – auk þess sem minni­hluti þings­ins geti vísað ákvörðun um framsal í þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Á af­mælis­ári full­veld­is­ins er það við hæfi að ut­an­rík­is­ráðherra skuli hafa skipað starfs­hóp, und­ir for­ystu Björns Bjarna­son­ar, fyrr­ver­andi ráðherra, til að vinna skýrslu um aðild Íslands að samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið. Veg­ur­inn milli þess að varðveita full­veldið og taka þátt í sam­starfi Evr­ópuþjóða er vandrataður. Þess vegna skipt­ir miklu að varpað sé skýru ljósi á kosti og galla aðild­ar að EES en ekki síður sé mótuð stefna til lengri tíma um hvernig við Íslend­ing­ar vilj­um tryggja náið og gott sam­starf við aðrar þjóðir. Efna­hags­leg vel­sæld næstu 100 ár full­veld­is ræðst af því hvernig okk­ur tekst til. Og það er rétt og skylt að hafa það í huga sem „Ei­rík­ur“ benti á fyr­ir einni öld; full­veldið er því aðeins „al­gert, að fjár­hags­legt sjálf­stæði fylgi“.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember 2018.