Aslaug Arna

Með vinsemd og virðingu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Þegar ég sest niður til að skrifa grein eða pist­il um stjórn­mál byrja ég á því að velta því fyr­ir mér hvaða mál­efni skuli taka fyr­ir eða hvaða póli­tísku skila­boðum ég vil koma á fram­færi. Ég geri ráð fyr­ir að flest­ir stjórn­mála­menn hugsi þannig. Stund­um eru þó ein­hver önn­ur mál sem koma upp og mann lang­ar til að fjalla um þótt þau teng­ist ekki þing­störf­um beint.

Það verður ekki sagt að umræða sem nokkr­ir þing­menn á bar urðu upp­vís­ir að ný­lega hafi snú­ist mikið um póli­tík. Um­fjöll­un­ar­efnið var að mestu annað fólk, m.a. fólk í stjórn­mál­um, og umræðan var ekki vönduð. Það bæt­ir ekk­ert þegar sum­ir þeirra reyna að rétt­læta orðalag sitt með þeim rök­um að svona sé „kúltúr­inn“ í ís­lensk­um stjórn­mál­um, eða þegar grund­völl­ur­inn að af­sök­un­ar­beiðnum er ein­hvers kon­ar rétt­læt­ing á orðanotk­un­inni, af því að svona hafi þetta alltaf verið.

Vissu­lega hafa ein­stak­ling­ar tek­ist harka­lega á í gegn­um tíðina á vett­vangi stjórn­mála, jafnt inn­an sem utan þing­húss­ins. Það þarf ekki að vera óeðli­legt að tak­ast stund­um á um ein­staka mál­efni af mik­illi hörku. En þá er líka mik­il­vægt að gera það með rök­um og á mál­efna­leg­an hátt og án þess að því fylgi meiðandi um­mæli eða ósvífni í garð ná­ung­ans. Átök­in snú­ast fyrst og síðast um ólíka sýn, en ekki al­gjöra fyr­ir­litn­ingu í garð annarra.

Það er ekki hægt að koma í veg fyr­ir það með fyr­ir­mæl­um eða regl­um að menn hegði sér kjána­lega. Þær eru til. Þing­menn hafa sett sér siðaregl­ur, flest­ir hafa hlotið eitt­hvert upp­eldi og heyrt um gullnu regl­una. Það er ein­fald­lega lík­leg­ast til ár­ang­urs að halda þá grund­vall­ar­reglu í sam­skipt­um og líf­inu al­mennt að koma al­menni­lega fram við aðra. (Og biðjast svo af­sök­un­ar án nokk­urra skil­yrða eða efti­r­á­skýr­inga ef þér tekst það ekki.)

Ágæt­ur maður sem nú er fall­inn frá, sér­fræðing­ur á sínu sviði, sagði gjarn­an þegar vand­ræði voru á viðskipta­vin­um hans: „Segðu sjálf­ur frá, segðu það strax, segðu alla sög­una og segðu satt.“ Það væri ósk­andi að formaður Miðflokks­ins tæki þetta til sín frek­ar en að koma með ótrú­verðugar út­skýr­ing­ar á til­færslu hús­gagna og þar fram eft­ir göt­um. Ef iðrun­in er sönn þá er stutt í fyr­ir­gefn­ing­una en það er ekk­ert, enn sem komið er, sem sýn­ir eft­ir­sjá yfir öðru en því að allt hafi kom­ist upp.

Það er skylda okk­ar kjör­inna full­trúa að berj­ast fyr­ir betra sam­fé­lagi af heil­ind­um. Við horf­um til framtíðar, sjá­um heim­inn taka stór­um breyt­ing­um til batnaðar, fram­far­ir á nær hverju sviði og leggj­um okk­ur fram við að vanda okk­ur. Ef ein­stak­ling­ar ætla að af­saka hegðun með vís­an til eldri tíma, þá get­ur verið að þeir ein­stak­ling­ar endi á að missa af vagn­in­um. Vagn­in­um sem er á leið fram veg­inn af því að framtíðin bíður ekki.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. desember 2018.