58 milljörðum lægra tryggingagjald innheimt frá 2013

Tryggingagjald mun lækka niður í 6,60% á árinu 2019 og niður í 6,35% á árinu 2020 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir í september og bíður nú þriðju og síðustu umræðu á Alþingi.

Hefur tryggingagjald lækkað um 1,45% í heildina frá því sem var árið 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók að nýju sæti í ríkisstjórn, en þá stóð tryggingagjaldið í 7,69%. Síðan þá hefur tryggingagjaldið verið lækkað í þrepum.

Á næsta ári nemur lækkunin frá því sem var árið 2013 alls 17 milljörðum króna sé miðað við áformað gjaldhlutfall 2019 til samanburðar við gjaldhlutfall ársins 2013. Það er munurinn á 7,69% og 6,60%.

Uppsöfnuð lækkun tryggingagjalds yfir sex ára tímabil árin 2014-2019 nemur alls 56 milljörðum króna sé það reiknað á verðlagi hvers árs fyrir sig en alls 58 milljörðum sé það reiknað á föstu verðlagi ársins 2019.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á lækkun tryggingagjalds þar sem segir: „Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald.“ Þessar lækkanir eru því mikilvæg skref í þessa átt.

Í lögum um tryggingagjald nr. 113/1990 er kveðið á um ráðstöfun tryggingagjalds. Þar segir að tekjur af gjaldinu skuli renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Meðal þeirra sem fá framlög af almennu tryggingagjaldi eru Vinnueftirlit ríkisins, Staðlaráð, Icepro, Fæðingaorlofssjóður og Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands nam atvinnuleysi á Íslandi 2,2% á þriðja ársfjórðungi ársins 2018 en var á sama tíma árið 2013 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var nýlega kominn í ríkisstjórn að nýju 4,4%. Atvinnuleysi hefur því lækkað hlutfallslega um helming á síðustu 5 árum og er lækkun tryggingagjalds liður í að bregðast við þeirri jákvæðu þróun.