2.000 milljónum verður varið til kaupa á þremur nýjum þyrlum til Landhelgisgæslunnar á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem nú bíður þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Þá verður 225 milljónum varið í að uppfæra búnað í flugvélinni TF-SIF.
Þetta er stórt skref í átt að því að efla flugflota Gæslunnar.
Málefni Landhelgisgæslunnar heyra undir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og í vor þegar þessi áform voru kynnt sagði ráðherra í samtali við mbl.is: „Svona hafa aðstæðurnar verið í mörg ár, en núna verður breyting á og ég hef lagt á það áherslu að Landhelgisgæslunni verði gert kleift að mæta þessum lögbundnu skyldum sínum sem hún hefur.“
Landhelgisgæslan rekur nú þrjár þyrlur, TF-GNA, TF-LIF og TF-SYN. Sú elsta, TF-LIF er árgerð 1987 og því orðin rúmlega þrjátíu ára. Það er því orðin full þörf á endurnýjun.
Landhelgisgæslan gegnir veigamiklu öryggishlutverki innan íslenskrar lögsögu, hvort sem er við öryggis-, löggæslu og eftirlit á hafi, leit og björgun, sjúkraflutninga eða aðstoð við almannavarnir svo dæmi séu tekin.
Þyrluáhöfnum Gæslunnar fjölgað á næsta ári
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar birtist einnig áherslu á eflingu Landhelgisgæslunnar en þar segir: „Tryggja þarf Landhelgisgæslunni nægilegt fjármagn til að rækja starf sitt.“
Mikilvægt er að Landhelgisgæslan hafi þau tæki, tól og mannskap sem þörf er á hverju sinni til að inna starf sitt vel af hendi og tryggja betur öryggi okkar allra.
Dómsmálaráðherra hefur einnig lagt áherslu á að fjölga áhöfnum á þyrlurnar og er einnig gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu. Áhöfnum verður fjölgað úr fimm í sex frá og með 1. júlí 2019 og nemur fjárveitingin 138 milljónum króna.
Upplýsingar um fjárlagafrumvarp 2019 og vinnslu þess í meðförum Alþingis má finna hér.