300 milljónir í smíði nýs hafrannsóknarskips

300 milljónir verða settar í smíði nýs hafrannsóknarskips á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem nú bíður þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Með því er ætlunin að efla rannsóknir er stuðli að sjálfbærni auðlinda hafsins.

Alþingi ályktaði samhljóða þann 18. júlí sl. að hefja smíði hafrannsóknarskips í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Er það einnig í góðu samræmi við stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar þar sem segir: „Hafrannsóknir gegna lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þarf að efla.“

Samkvæmt ályktun Alþingis skal framlagi veitt af fjárlögum á árunum 2019 – 2021 og er fjárveitingin fyrir næsta ár fyrsti liðurinn í því, en fjármagninu verður varið til hönnunar og undirbúnings. Málið er á forræði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í grein í Fréttablaðinu þann 19. júlí skrifar ráðherra:

„Ákvörðun Alþingis frá því í gær er því mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að efla hafrannsóknir líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með því er verið að styrkja stöðu Íslands sem fiskveiðiþjóðar enda eru öflugar hafrannsóknir nauðsynleg undirstaða verðmætasköpunar í sjávarútvegi.“

Ráðherra sagði í sömu grein að skipið muni gera Íslendingum kleift að auka þekkingu sína á hafinu umhverfis Ísland og þeim breytingum sem þar eru að verða, m.a. með hlýnandi loftslagi og breytingum á vistkerfi hafsins. Skipið muni einnig styrkja vinnu við kortlagningu hafsbotnsins sem áformað sé að ljúka innan 10 ára.

„Allt mun þetta stuðla að því að Ísland verði áfram í forystu í þegar kemur að góðri umgengni við náttúruna og í haf- og fiskirannsóknum enda er litið til landsins sem fyrirmyndar þegar að kemur að málefnum hafsins.“

  • Grein ráðherra má í heild sinni nálgast hér.
  • Þingsályktun Alþingis má nálgast hér.