Skuldaklukkan tifar

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Það eru blikur á lofti í efnahagsmálum, stýrivextir hafa verið hækkaðir og á þriðja hundrað kjarasamninga eru lausir næsta hálfa árið. Við vitum ekki nákvæmlega  hvert stefnir en hins vegar getum við skoðað hver staðan er núna og metið framhaldið. Framtíð útsvarsgreiðenda í Reykjavík er ekki björt árið 2022 verða vaxtagreiðslur borgarsamstæðunnar orðnar ellefu milljarðar. Ellefu milljarðar sem eytt er í vexti af því að framkvæmdir eru fjármagnaðar með lánum í mesta tekjugóðæri borgarinnar. Skuldir aukast á þessu ári um tuttugu milljarða og áætlanir gera ráð fyrir því að þær hækki um fimmtán milljarða 2019. Þrjátíu og fimm milljarða hækkun á tveimur árum. Skuldir borgarinnar eru því að hækka um fjörutíu og átta milljónir á dag. Tvær milljónir á klukkustund og eins og áður sagði, það í mesta tekjugóðæri Reykjavíkurborgar.

Hve lengi er hægt að skuldsetja Reykjavíkurborg og vona að góðærið haldi áfram? Tugir íbúða standa tómar, þrátt fyrir sögulegan íbúðaskort. Það er einfaldlega af því að þétting byggðar hefur ekki heppnast sem skyldi. Venjulegt fólk hefur ekki efni á því að kaupa þessar íbúðir sem voru byggðar fyrir Beckham hjónin. Ungt fólk flytur fer í nágrannasveitarfélög Reykjavíkur, því þar fær það meira fyrir peningana. Kannanir sýna okkur líka að íbúar telja grunnþjónustuna þar betri en í Reykjavík.

Það eina sem borgarmeirihlutanum hugkvæmist er að hækka álögur á borgarbúa eða finna upp ný gjöld. Það er virk samkeppni um íbúa og höfuðborgarsvæðið er orðin ein heild. Flest fólk veltir því ekki endilega fyrir sér hvort að það búi í Garðabæ, Seltjarnarnesi eða í hvaða hverfi Reykjavíkur. Það einfaldlega skoðar hvar það fær besta húsnæðið fyrir sig og bestu þjónustuna. Þar fellur Reykjavík því miður á prófinu. Reykjavíkurborg er augljóslega ekki lengur fyrsta val þegar kemur að búsetu enda sést það best á því að Reykjavíkurborg hefur ekki vaxið í takt við sveitarfélög í kring.

Byggingaraðilar kvarta sáran yfir því að stjórnsýsla Reykjavíkur í skipulagsmálum sé í molum, ófagleg, háð geðþóttaákvörðunum og óráðsía virðist regla. Þar liggur stærsti þröskuldurinn. Rörsýn meirihluta undanfarinna ára í skipulagsmálum hefur komið í veg fyrir að þau sjái heildarmyndin sem blasir við öllum öðrum. Ódýrar og góðar íbúðir verða ekki byggðar á dýrustu byggingarsvæðum landsins.

Það kemur að skuldadögum, skuldaklukkan tifar og þegar harðnar í ári getur borgin ekki kreist meira út úr borgarbúum. Reykjavík þarf að stokka upp í skipulagsmálum, lækka álögur, hætta með innviðagjald, hætta skuldsetningu og síðast en ekki síst draga höfuðið upp úr sandinum með að allir vilji búa í miðbænum. Þá og kannski þá getur borgin orðið sjálfbær og stolt landsmanna.

valgerdur.sigurdardottir@reykjavik.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2018.