Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Í vikunni var kynnt metnaðarfull áætlun hjá Reykjavíkurborg sem miðar að því að börn frá 12 mánaða aldri komist inn á leikskóla Reykjavíkur. Þegar verið er að kynna svona stórar breytingar þá spyr maður sig hvernig er ástandið í dag. Erum við með það góða þjónustu að við sjáum fram á það að geta boðið öllum 12 mánaða börnum pláss árið 2023?
Það hefur verið kosningaloforð síðan 2002 að börn 18 mánaða og eldri eigi að komast inn á leikskóla. Því miður þá vantar okkur töluvert upp á að ná því markmiði núna sextán árum síðar. Í dag hefur ekki tekist að koma öllum börnum að á leikskóla sem var boðið vistun í haust. Það er að koma desember og allir eiga að vera komnir inn um áramót. Það finnst mér óásættanlegt, það að þurfa að bíða í um sex mánuði eftir að þú færð bréf um vistun og þangað til þú kemst inn er ekki í lagi eða góð þjónusta. Um áramót þegar þessi börn hafa komist inn eru þá öll börn 18 mánaða og eldri kominn inn á leikskóla Reykjavíkur? Það er ekki svo gott því í dag eru 60 börn eldri en 18 mánaða á biðlista og þeim hefur ekki verið boðið pláss á leikskólum. Því eru stór verkefni fram undan og miklar áskoranir hjá núverandi meirihluta.
Hver er staðan hjá Reykjavíkurborg í dag
Í október 2017 var búið að ráða í 1430 stöður samanborið við októbermánuð sl. en þá var búið að ráða í 1423 stöður. Þannig er búið að ráða í færri stöður en í fyrra. Laus pláss árið 2017 voru 200, núna eru þau 370. Árið 2016 starfaði 321 leikskólakennari hjá Reykjavíkurborg en árið 2017 265, þannig hættu 56 leikskólakennarar á einu ári.
4 leikskólar Reykjavíkurborgar eru með engan leikskólakennara. 7 skólar með 1 leikskólakennara og 11 með 2 leikskólakennara.
Vandi Reykjavíkurborgar er ekki húsnæðisvandi hann er mönnunarvandi
Það ætti því að vera auðvelt að koma öllum þeim börnum sem eru á biðlistum að á leikskólum miða við það að 370 pláss eru laus. En það er ekki hægt vegna þess að Reykjavíkurborg skortir mannskap. Þessi mikla mannekla er það sem stendur í vegi fyrir því að við getum boðið börnum pláss á leikskólum Reykjavíkurborgar.
Það er gott að hafa framtíðarsýn en þegar ekki er hægt að standa við gömul loforð þá er einkennilegt að koma með ný loforð sem ekki er auðvelt að sjá að eigi eftir að ganga eftir miða við núverandi ástand í mönnunarmálum.
Greinin birtist fyrst á visir.is 22. nóvember 2018