Bjarni sótti landsþing Fólkaflokksins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, var gestur á landsþingi Fólkaflokksins í Færeyjum um nýliðna helgi.

Auk þess að sækja þingið heim kynnti Bjarni sér færeyskt atvinnulíf og skoðaði meðal annars nýjar höfuðstöðvar færeyska laxeldisfyrirtækisins Bakkafrosts í Rúnavík, en það er í dag stærsta fyrirtæki eyjanna. Bjarni heimsótti einnig sjávarútvegsfyrirtækið Varðin í Tvøroyri á Suðurey en síðarnefnda verksmiðjan brann til kaldra kola árið 2017 og hefur nú verið endurbyggð.  Í báðum verksmiðjunum er stuðst við íslenskt hugvit og eru þær búnar tækjum og tólum meðal annars frá Skaganum 3X og Marel.

Bjarni fundaði einnig með Jørgen Niclasen formanni Fólkaflokksins og Aniku Olsen borgarstjóra Þórshafnar.

Ljósmynd/Fólkaflokkurinn

Í ræðu sinni á þinginu ræddi Bjarni tengsl þjóðanna tveggja og mikilvægi þess að styrkja þau enn betur. Hann minntist þess hvernig Færeyingar stóðu við bakið á Íslendingum í efnahagskreppunni síðustu og fór almennt yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þá ræddi hann um ríkisstjórnarsamstarfið á Íslandi og sagði það byggt á traustum grunni. Bjarni sagði mikilvægt að horfa til framtíðar til að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar, ekki síst vegna fjórðu iðnbyltingarinnar og það skipti ekki síst máli fyrir litlar þjóðir eins og Íslendinga og Færeyinga að búa sig undir hana. Þar væri meðal annars mikilvægt að horfa til varðveislu á tungumáli og menningu, lífsháttum og öðrum þjóðareinkennum.

Bjarni sagði að fjarlægðin væri ekki lengur skjöldur fyrir litlar eyþjóðir og að það sem gerðist í fjarlægari löndum hefði strax áhrif hér. Nefndi hann sem dæmi hryðjuverk, innri vandamál ESB, viðskiptaþvinganir á Rússa o.fl.

Bjarni sagði stórt atriði fyrir Íslendinga og Færeyinga að standa saman gegn þessum áskorunum, rétt eins og fjölskylda gerir þegar á bjátar. Hann sagði þjóðirnar eiga margt sameiginlegt, margt að gefa og margt að læra frá hvor annarri.

Bjarni ræddi einnig samskipti Sjálfstæðisflokksins og Fólkaflokksins og fagnaði því að Fólkaflokkurinn myndi nú taka þátt í næstu fundum íhaldsflokka innan Norðurlandasamstarfsins. Hann sagðist sannfærður um að það myndi styrkja Fólkaflokkinn og styrkja samtök systurflokkanna á Norðurlöndunum almennt.