Afnemum stimpilgjöld

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og ritari Sjálfstæðisflokksins:

Formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar lagði ný­lega fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um aðgerðaáætl­un í hús­næðismál­um, þar sem lagt er til að brugðist sé við al­var­legu ástandi og að stjórn­völd komi að bygg­ingu 5.000 leigu­íbúða til að mæta skorti á hús­næði. Skila­boðin eru skýr; formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar hef­ur ekki trú á því að vinstri meiri­hlut­inn í Reykja­vík standi við skyldu sína um að tryggja nægj­an­legt fram­boð á bygg­ing­ar­lóðum á hag­stæðu verði. Hann virðist held­ur ekki hafa trú á því að flokks­bróðir hans, borg­ar­stjór­inn í Reykja­vík, standi við gef­in lof­orð um fjölda nýrra íbúða í höfuðborg­inni. Kannski ekki að undra þar sem lof­orðin eru end­urunn­in frá síðasta kjör­tíma­bili enda ekki við þau staðið.

Það er öll­um ljóst að það rík­ir vandi á hús­næðismarkaði. Vand­inn er fyrst og fremst fram­boðsvandi, ekki síst vegna skorts á bygg­ing­ar­lóðum á hag­stæðu verði. Ábyrgðin er sveit­ar­stjórna og mörg hafa staðið und­ir þeirri ábyrgð. Önnur hafa ekki sinnt sín­um skyld­um eins og formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar virðist átta sig á.

Stjórn­völd eiga að tryggja raun­veru­legt val­frelsi í hús­næðismál­um. Í ný­legri skýrslu Íbúðalána­sjóðs kem­ur fram að lang­flest­ir (92%) vilja búa í sínu eig­in hús­næði. Þannig bygg­ir fólk upp fjár­hags­legt ör­yggi og sjálf­stæði, eitt­hvað sem vinstri flokk­un­um hugn­ast illa. Það kann að henta sum­um að vera í leigu­hús­næði til skemmri tíma, t.d. ungu fólki í námi. Aðrir vilja hrein­lega búa í leigu­hús­næði og líta á það sem ákveðið frelsi frá fjár­hags­leg­um skuld­bind­ing­um. Stefna stjórn­valda á hins veg­ar ekki að ein­blína á það að byggja ótak­markað magn af leigu­hús­næði, held­ur eiga stjórn­völd að gera það sem þau geta – og inn­an skyn­sam­legra marka – til að aðstoða ein­stak­linga við að eign­ast sitt eigið hús­næði.

Rík­is­valdið get­ur gert sitt með því að breyta og eft­ir til­vik­um af­nema óþarfar reglu­gerðir og minnka kostnað við íbúðar­kaup. Áður hef­ur verið bent á það að með breytt­um bygg­ing­ar­reglu­gerðum sé hægt að lækka bygg­ing­ar­kostnað um 15-20%, án þess að skerða ör­yggi, aðgengi og gæði bygg­inga.

Stimp­il­gjald er kostnaðarliður sem þarf að af­nema og skapa þannig heil­brigðara um­hverfi á fast­eigna­markaði. Af 35 millj­óna króna íbúð þarf að greiða tæp­ar 300 þúsund krón­ur í stimp­il­gjald til rík­is­ins. Þessi til­gangs­lausi skatt­ur bitn­ar ekki ein­ung­is á ungu fólki held­ur líka öll­um þeim sem hyggj­ast hreyfa sig á hús­næðismarkaði, t.d. eldra fólki sem vill minnka við sig svo tekið sé dæmi.

Ég hef aft­ur lagt fram frum­varp um af­nám stimp­il­gjalda vegna kaupa ein­stak­linga á íbúðar­hús­næði, ekki bara vegna fyrstu íbúðar­kaupa held­ur al­mennt allra ein­stak­linga. Ég von­ast til þess að hægt verði að klára frum­varpið á yf­ir­stand­andi þingi. Þannig stíg­um við stórt skref í átt að betri hús­næðismarkaði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. nóvember 2018.